Íslenski náttúruverndarsjóðurinn: Guðlaugur Þór hættulegastur fyrir umhverfið og lífríki Íslands

Talsmaður íslenska náttúruverndarsjóðsins, Icelandic wildlife fund, sakar Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfisráðherra um að vera hættulegan fyrir umhverfi og lífríki Íslands. Hann gengur reyndar lengra og segir hann líklega þann hættulegasta. Samtökin berjast hatrammlega gegn laxeldi í sjó, einkum á Vestfjörðum.

Ummælin falla á Facebook síðu samtakanna 20. desember síðastliðinn. Tilefnið er að ráðherrann skipaði starfshóp undir forystu Einars K. Guðfinnssonar, fyrrv. forseta Alþingis sem á að vinna tillögur um eflingu samfélags á Vestfjörðum.

Í færslu segja samtökin að „Það er engu líkara en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi ákveðið að storka náttúruverndarfólki eins hraustlega og mögulegt er með skipun formanna í tveimur starfshópum. Í dag kynnir hann Einar K. Guðfinnsson, helsta lobbísta sjókvíaeldisiðnaðarins undanfarin ár, sem formann starfshóps sem á meðal annars að skila tillögum um „græna atvinnuuppbyggingu“ á Vestfjörðum.“

og svo er bætt við: „Hafi einhver haldið það enn að Guðlaugur Þór væri í stóli umhverfisráðherra til að vinna að vernd íslensks lífríkis og náttúru þá hefur þeim misskilningi verið eytt endanlega.“

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn nefnist Icelandic wildlife fund á ensku. Stofnendur IWF eru Ingólfur Ásgeirsson flugstjóri og Lilja R. Einarsdóttir framkvæmdastjóri.

IWF ver þeim fjármunum sem safnast í verkefni sem liggja fyrir hverju sinni og samræmast markmiðum sjóðsins. Í því sambandi má nefna rekstur vefsíðu, gerð ýmiss konar kynningarefnis, fræðslu og upplýsingagjöf.

Stjórn sjóðsins er þannig skipuð: Freyr Frostason, formaður, Arndís Kristjánsdóttir, Haraldur Eiríksson, Inga Lind Karlsdóttir og Hrefna Sætran. Varamenn eru Lilja Einarsdóttir, Ragna Sif Þórsdóttir og Örn Kjartansson.

Ingólfur Ásgeirsson er framkvæmdastjóri. Jón Kaldal stýrir daglegum rekstri og er ritstjóri þessarar Facebook síðu. PwC sér um endurskoðun og skil.

DEILA