Tónlistarhátíðin Við Djúpið: leikjanámskeið og harmonika

Tónlistarhátíðin Við Djúpið kynnir í ár nýjung í námskeiðaflóru hennar. Boðið verður upp á leikjanámsleið í tónlist fyrir börn á grunnskólaaldri og sem fyrr verður hádegistónleikaröð á hátíðinni.

Leikjanámskeið fyrir börn

Svava Rún Steingrímsdóttir og Katrín Karítas Viðarsdóttir eru nýútskrifaðar úr skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands og bjóða upp á tónlistarnámskeið fyrir börn þar sem áhersla er lögð á tónlistarleiki, söng, raddanir, aðferðir við að semja tónlist og spuna. Markmið námskeiðsins er að efla tónlistarþekkingu barna og kynna þeim nýjar og skemmtilegar hliðar tónlistarinnar.

Námskeiðin verða tvö og standa yfir dagana 18.–22. júní. Á morgnana mæta börn úr 5.–10. bekk og eftir hádegi börn úr 1.–4. bekk.

Svava Rún stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri. Hún hefur meðal annars lært söng, æft á fiðlu og píanó. Katrín Karítas er fædd og uppalin á Akureyri þar sem hún stundaði nám við fiðlu, píanó og víólu við tónlistarskólann þar.

Harmonikan ríður á vaðið

Það hefur skapast sú hefð á hátíðinni að bjóða upp á röð stuttra hádegistónleika fyrir þau er vilja brjóta upp vinnudaginn með andlegri hádegishressingu og um leið gera heimsóknina til Ísafjarðar enn ríkulegri fyrir gesti sem koma lengra að.

Í ár verður engin untantekning og hádegistónleikaröð á dagskránni. Það harmonikuleikarinn Goran Stevanovich sem opnar röðina þriðjudaginn 18. júní kl. 12:15.

Stevanovich hefur verið kallaður töframaður á harmonikkuna og vekur stöðugt aðdáun fyrir fjölhæfni sína og nýsköpun. Hann leikur jöfnum höndum nýja tónlist og gamla, allt frá endurreisn til Schuberts, Mahlers og Hindemiths, og hefur þróað afar persónulegan stíl. Goran er fæddur í Bosníu-Hersegóvínu og hóf þar að leika á harmónikku en stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Hannover þar sem hann gegnir nú lektorsstöðu.

Allir hádegistónleikarnir fara fram í Bryggjusal Edinborgarhússins við Aðalstræti á Ísafirði, hefjast kl. 12:15 og eru stuttir. Miðaverði á tónleikanna er stillt í hóf en hátíðarpassi veitir einnig aðgang. Koma Gorans er styrkt af Goethe-stofnuninni.

DEILA