Alþingi: fallið frá hækkun fiskeldisgjaldsins

Frá fiskeldinu í Hringsdal. Mynd: Arnarlax.is

Fallið hefur verið frá boðaðri hækkun á fiskeldisgjaldinu úr 3,5% í 5% af alþjóðlegu markaðsverði á laxi. Í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 var þetta lagt til. Gert var ráð fyrir að hækkunin myndi skila 500 m.kr. í ríkissjóð á næsta ári.

Ástæðan er sú að stefnumótun um fiskeldi stendur yfir og gert var ráð fyrir að hún væri komin lengra en raunin er. Þar verður meðal annars farið yfir gjaldtöku af greininni og þykir rétt að bíða með þessa hækkun nú þar til niðurstaða er komin úr stefnumótuninni. Boston Consulting Group vinnur að skýrslu fyrir Matvælaráðherra um framtíðarmöguleikana í lagareldi og Ríkisendurskoðun vinnur að skýrslu um framkvæmd laga um fiskeldi.

Fiskistofa birti í síðasta mánuði auglýsingu um fiskeldisgjald á næsta ári að óbreyttum lögum og verður það 18,33 kr. á hvert kílógramm slátraðs lax á árinu 2023 og helmingur þess eða 9,16 kr. á hvert kílógramm slátraðs regnbogasilungs á árinu 2023.

Veiðigjald fyrir þorsk á þessu ári er 17,74 kr/kg. Ekki hefur verið tilkynnt um veiðigjald fyrir næsta ár.

DEILA