Neyðarlínan kemur að 8 fjarskiptasendum á Vestfjörðum

Örlygshöfn.

Neyðarlínan hefur komið að fjármögnun og uppsetningu á 20 fjarskiptasendum á svæðum þar sem fyrirsjáanleg nýting fjarskiptaþjónustu myndi ekki standa undir fjárfestingum og rekstri á viðskiptalegum forsendum. Þar af eru 8 sendar á Vestfjörðum.

staðursvæðisveitarfélag
IllavikKjörvogshlíðÁrneshreppur
GautsdalurÞröskuldarReykhólahreppur
SkarðseyriSkötufjörðurSúðavíkurhreppur
GemlufallsheiðiGemlufallsheiðiÍsafjarðarbær
HörgshlíðMjóifjörðurSúðavíkurhreppur
MelanesRauðisandurVesturbyggð
ÖrlygshöfnÖrlygshöfnVesturbyggð
StaðurÞorskafjörðurReykhólahreppur

Þessar upplýsingar koma fram í skriflegu svari á Alþingi frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur (B) um uppbyggingu fjarskipta í dreifbýli.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.

Spurt var: Á hvaða svæðum hafa verið byggðir upp farsímasendar á grundvelli samnings um samstarf farnetsfyrirtækja og Neyðarlínunnar um gagnkvæmt reiki og samþykki fyrir samnýtingu tíðna við að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi?

Fram kemur í svarinu að tvær ástæður eru til þess að Neyðarlínan beitti sér fyrir samstarfi við almennu fjarskiptafélögin um samnýtingu tíðni og búnaðar á tilteknum svæðum, þar sem fyrirsjáanleg nýting fjarskiptaþjónustu myndi ekki standa undir fjárfestingum og rekstri á viðskiptalegum forsendum.  Annars vegar hafði félagið með ákvörðun Póst-og fjarskiptastofnunar nr. 9/2020 verið útnefnt sem alþjónustuveitandi fjarskiptatenginga fyrir síma- og internetþjónustu við lögheimili og vinnustaði með heilsársstarfsemi og frá upphafi blasti við að víða væri hagkvæmast að leysa þetta viðfangsefni með því að setja upp fársímatengingu og hins vegar hafi óveðrið í desember 2019 dregið fram mikilvægi þess að efla öryggi og útbreiðslu farsímakerfisins til að tryggja sem best aðgengi almennings að neyðarsímsvörun 112-þjónustunnar. 

Gott samstarf komst á milli Neyðarlínunnar og farsímafélaganna þriggja, Símans, Nova og Vodafone, um tæknilega uppbyggingu sem tryggi framangreind markmið. Samstarfið miðist við að koma á fjarskiptasambandi við staði þar sem ekki er von um fjarskiptaumferð sem skilað geti tekjum sem standi undir kostnaði af þjónustunni. Neyðarlínan hafi því tekið að sér uppsetningu og tengingu viðkomandi fjarskiptastaðar en eitt af félögunum hefur tekið að sér uppsetningu búnaðar, með stuðningi Neyðarlínunnar, og rekstur þjónustunnar. Nokkrir fjarskiptastaðir, sem hafi fallið undir fyrrgreint alþjónustuverkefni, hafi verið kostaðir af opinberri fjárveitingu fyrir milligöngu Fjarskiptastofu. Aðra staði hafi Neyðarlínan náð að fjármagna og þá m.a. nýtt til þess fjárstuðning fjarskiptasjóðs til að efla fjarskiptaþjónustu. 

Ekki kemur fram hver kostnaðurinn var af hverjum sendi og hver hlutur Neyðarlínunnar eða fjarskiptasjóðs var.

Áform eru um að setja upp 27 fjarskiptasenda til viðbótar ef fjármagns fæst til þess, þar af eru 6 á Vestfjörðum. Þrír þeirra eru í Vesturbyggð, á Látrabjargi, við flugvöllinn í Patreksfirði og á Hærriöxl. Einn sendir er áformaður á Kvígindisfelli í Tálknafirði, einn er óstaðsettur í Súðavíkurhreppi og loks er Staður í Súgandafirði á verkefnaskránni.

DEILA