OV: áformar stækkun Mjólkárvirkjunar

Mynd af Borgarfirði.

Orkubú Vestfjarða áformar að auka raforkuframleiðslu Mjólkárvirkjunar og ráðast í frekari innviðauppbyggingu í Arnarfirði. Áformin fela í sér:
Aukna raforkuframleiðslu með nýrri 0,5 MW virkjun við Hólmavatn og stækkun stíflu við Tangavatn.
Uppsetningu orkuafgreiðslustöðvar fyrir vistvæn ökutæki við Mjólká.
Stækkun bryggju innst í Borgarfirði.
Í erindi Verkís til Ísafjarðarbæjar kemur fram að áform Orkubúsins munu leiða til aukinnar raforkuorkuframleiðslu og betri nýtingar á vatnsafli. Uppsetning orkuafgreiðslustöðvar og stækkun bryggju eru viðbrögð við aukinni umferð um Borgarfjörð, orkuskiptum í samgöngum og vexti í ferðaþjónustu og fiskeldi.

Áformin kalla á skipulagsbreytingar og óskar Orkubúið eftir því að gerð verði breyting á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og að fyrirtækinu verði veitt heimild til að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi Mjólkár.

Orkubúið óskar einnig eftir því að breyting á deiliskipulagi við munna Dýrafjarðarganga í landi Rauðsstaða og Borgar frá árinu 2017 verði felld úr gildi. Skipulagsbreytingin var til komin vegna vinnubúða í tengslum við gerð ganganna. Ákvæði um heimild fyrir vinnubúðum yrði sett inn í breytingu á deiliskipulagi Mjólkár.
Orkubú Vestfjarða telur að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar séu í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 og að þær muni hafa jákvæð samfélagsleg áhrif en óveruleg áhrif á umhverfið.

Stækkun virkjunar

Fyrirhugað er að hækka stíflu við Tangavatn um þrjá metra og auka þannig miðlunargetu þess. Einnig á að virkja afrennsli vatnsins með allt að 0,5 MW virkjun við Hólmavatn. Hólmavatn er nú þegar nýtt sem uppistöðulón. Lögð verður um 600 m löng niðurgrafin þrýstipípa frá Tangavatni og að fyrirhuguðu stöðvarhúsi við Hólmavatn. Með framkvæmdinni næst betri nýting á vatnasviði Mjólkár án mikilla umhverfisáhrifa.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar frestaði afgreiðslu erindisins og óskaði eftir kynningarfundi með skipulagsráðgjafa framkvæmdaraðila.

DEILA