Grænmetisrækt: 95% niðurgreiðsla á raforku

Grænmetisrækt í Strandasýslu. Mynd: strandir.is

Fram kemur í svari Matvælaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um grænmetisrækt að  að ylræktendum eru nú tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Í því felst að magnliðir og fastagjald í gjaldskrá dreifiveitna fyrir flutning og dreifingu eru greidd niður um allt að 95%, en framleiðendur garðyrkjuafurða greiða að lágmarki 5%.


405 m.kr. í niðurgreiðslur

Í svarinu segir ennfremur:

„Áætlanir gera ráð fyrir að 95% af kostnaði verði greidd vegna notkunar á árinu 2022. Samkvæmt samningnum eru 404.869.186 kr. til ráðstöfunar á árinu vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku. Við þá upphæð bætist 25% álag á greiðslur ársins í samræmi við tillögur spretthópsins sem áætlað er að verði greiddar í upphafi árs 2023.
Mikil tækifæri eru til þess að efla innlenda matvælaframleiðslu og sjálfbærni með því að sækja fram í grænmetisframleiðslu. Á það bæði við aukna ylrækt og útiræktun grænmetis. Einstakir kostir Íslands eru á þessu sviði, sem felast í endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðvarma og raforku, sem og aðgengi að hágæðaferskvatni, mannauði og þekkingu, og mynda forsendur fyrir frekari vexti og eflingu á garðyrkjuframleiðslu. Áhersla er lögð á að starfsskilyrði greinarinnar skapi hvata og ýti undir framtak til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar.“

DEILA