Vesturbyggð: bæjarstjóri fær 1.650.000 kr á mánuði

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Bæjarstjón Vesturbyggðar afgreiddi samhljóða ráðningarsamning Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur sem bæjarstjóra á fundi sínum í gær. Laun Þórdísar eru 1.650 þús kr á mánuði og er yfirvinna og nefndavinna innifalin í því. Hún fær 700 km greidda á mánuði í ferðakostnað og leggur sveitarfélagið til fartölvu og farsíma. Vesturbyggð greiðir kostnað við flutning á búslóð Þórdísar frá Borgarnesi til Vesturbyggðar.

Ráðningartíminn er sá sami og kjörtímabil bæjarstjórnar 2022-2026. Almennt uppsagnarákvæði er í samningnum og kveður það á um fjögurra mánaða fyrirvara. Verði bæjarstjóri ekki endurráðinn að loknu kjörtímabilinu greiðast biðlaun í fjóra mánuði. Þiggi Þórdís laun vegna annarra starfa á biðlaunatímanum dragast þau laun frá biðlaununum. Óski bæjarstjórn eftir því að Þórdís starfi um stundarsakir þar til nýr bæjarstjóri hefur verið ráðinn að loknum næstu bæjarstjórnarkosningum skuldbindur hún sig til þess í allt að þrjá mánuði og ávinnur sér þá þrjá mánuði til viðbótar í biðlaun. Samkvæmt þessu gætu biðlaunin orðið allt að sjö mánuðir.

Kveðið er á um að bæjarstjóri eigi lögheimili í sveitarfélaginu.

DEILA