Vestfirði: fækkaði um 7 í október – fjölgun um 114 frá 1.desember 2020

Íbúum á Vestfjörðum fækkaði um 7 í október og voru 7.213 með lögheimili í fjórðungnum þann 1. nóvember. Mestu munaðu um fækkun upp á 10 manns í Ísafjarðarbæ. Litlar breytingar urðu í öðrum sveitarfélögum, í Bolungavík og Reykhólahreppi fjölgaði um 3 íbúa í hvoru sveitarfélagi og fækkun varð um 3 í Tálknafirði.

Frá 1. desember 2020 hefur hins vegar fjölgað á Vestfjörðum um 114 manns eða um 1,6% sem er aðeins undir landsmeðaltalinu 1,9%. Á sunnanverðu landinu fjölgaði fólki meira en minna á norðan- og austanverðu landinu.

Mest er fjölgunin á Suðulandi frá 1. desember eða 3,2% og næstmest á Suðurnesjum 2,5%.

Mest fjölgun frá 1. desember á Vestfjörðum er í Vesturbyggð 6,6% eða um 70 manns. Íbúar þar eru nú 1.135. Næst mest hefur fjölgað í Súðavík um 5,4% eða um 11 manns. Fækkun er mest í Tálknafjarðarhreppi á þessu tímabili. Fækkað hefur um 12 manns sem er 4,5%.

Fjölgunin í Vesturbyggð er hlutfallslega sú fimmta mesta á landinu á umræddu tímabili.

DEILA