Hvenær var holtasóley kosið þjóðarblóm?

Holtasóley (Dryas octopetala)

Árið 2004 vann starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra, í samvinnu við menntamálaráðherra, samgönguráðherra og umhverfisráðherra, að því að velja þjóðarblóm Íslendinga. Tilgangur verkefnisins var að velja blóm sem gæti haft táknrænt gildi og þjónaði hlutverki sem sameiningartákn, blóm sem nýta mætti í kynningar- og fræðslustarfi bæði hér á landi og á erlendum vettvangi.

Verkefnastjórnin fól Landvernd og Morgunblaðinu að standa fyrir opinni skoðanakönnun í þeim tilgangi að fá fram viðhorf Íslendinga til málsins. Könnunin fór fram dagana 1.-15. október 2004 bæði á Netinu og með póstlögðum atkvæðaseðlum sem birtust í Morgunblaðinu. Tilgreind voru sjö blóm sem þátttakendur gátu gefið einkunn á bilinu 0-6 stig eftir því hversu vel þeim þótti blómin til þess fallin að hljóta titilinn þjóðarblóm Íslendinga.

Blómin sem valið stóð um voru blágresi, blóðberg, geldingahnappur, gleym-mér-ei, holtasóley, hrafnafífa og lambagras. Vorið áður höfðu verið kynntar tuttugu tillögur að þjóðarblómi en eftir nánari umfjöllun og ábendingar sem fram komu frá skólum landsins var ákveðið að þrengja hringinn um þessi sjö blóm.

Niðurstaða könnunarinnar var kynnt á sérstökum þjóðarblómsfundi í Salnum í Kópavogi 22. október 2004 að viðstöddum forseta Íslands og landbúnaðarráðherra. Niðurstaðan var sú að holtasóley varð fyrir valinu en skammt á hæla hennar komu gleym-mér-ei og blóðberg.

Af vísindavef Háskóla Íslands

DEILA