Ferðafélag Ísfirðinga: Söguferð um Hnífsdal

Bæjarganga og ganga upp í Miðhvilft – 1 skór
Laugardaginn 25. maí

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Gabríela Aðalbjörnsdóttir og Jóhann Birkir Helgason.
Mæting kl. 10.00 við félagsheimilið í Hnífsdal.
Gengið um þorpið og nágrenni þess á nýjum göngustígum.
Göngutími: um 1,5 klst. Að þeirri göngu lokinni er í boði að fara upp í Miðhvilft sem er í þriggja km fjarlægð frá þorpinu og tæpum 300 m ofar. Um tveggja tíma viðbót.

Bókin Saga Hnífsdals eftir Kristján Pálsson kom út síðastliðið haust. Útgáfuhóf var haldið í Félagsheimilinu í Hnífsdal og annað í Eymundsson á Skólavörðustíg í Reykjavík. Á báðum stöðum var fjölmenni mætt til þess að fagna útgáfu bókarinnar.

Bókin er mikið verk, rúmlega 500 blaðsíður og rekur sögu Hnífsdals fram til 1971 þegar Eyrarhreppur sameinaðist Ísafjarðarkaupstað. Höfundur er Kristján Pálsson, fyrrv. alþm og sagnfræðingur. Hann gefur sjálfur bókina út.

Í Landnámu er Hnífsdalur nefndur Skálavík og telur Kristján að nafnið sé dregið af mörgum skálum eða hvilftum í Bakkafjalli. Nafnið breyttist síðar , hugsanlega þegar Vatnsfirðingar eignuðust dalinn, en þeir áttu aðra Skálavík yst í Mjóafirði í Ísafjarðadjúpi.

Bókin skiptist í 22 kafla þar sem fjallað er um byggðina og mannlífið. Meðal annars er rakin ábúendasaga á Hnífsdalsjörðunum eftir 1861, íbúaþróun, vélaöldina, snjóflóðin í byrjun 20. aldar, verkalýðsbaráttuna og félagasamtökin.

Þar má nefna kvenfélagið Hvöt, ungmennafélög og slysavarnarsveit.

Í ávarpi sínu í Eymundsson sagði Kristján Pálsson frá því þegar kvenfélagið Hvöt samþykkti að láta söfnunarfé sitt til byggingar á kirkju í Hnífsdal ganga til þess að fjármagna bryggju en þeir sem fyrir því stóðu urðu uppinskroppa með fé. Varð það niðurstaðan þar sem bryggju þurfi og hún varð svo til þess að frystihúsið var síðar reist í Hnífsdal. En kirkjan er enn ókomin.

DEILA