Aldarafmæli: Finnbjörn Þorvaldsson

Minnt er á það í Morgunblaði dagsins að í dag er aldarafmæli Hnífsdælingsins Finnbjörns Þorvaldssonar, frjálsíþróttakappa.

Æviágrip:

Finnbjörn Þorvaldsson fæddist 25. maí 1924 í Hnífsdal en ólst upp á Ísafirði og í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Halldóra Finnbjörnsdóttir, f. 1885, d. 1977, og Þorvaldur Magnússon, f. 1895, d. 1976.

Að námi loknu í Samvinnuskólanum fór Finnbjörn að vinna fyrir Ísafoldarprentsmiðju en svo hjá Loftleiðum þar sem hann var skrifstofustjóri og síðan fjármálastjóri.

Á árunum 1945-1952 var Finnbjörn einn besti frjálsíþróttamaður á Norðurlöndunum. Hann setti tugi Íslandsmeta í spretthlaupum og langstökki. Finnbjörn tók þátt í Norðurlandamótum þar sem hann vann sigra og Evrópumótum þar sem hann komst í úrslit. Hann keppti enn fremur á Ólympíuleikunum í London 1948, þar sem hann var einnig fánaberi Íslands.

Finnbjörn varð einnig Íslandsmeistari með félagi sínu, ÍR, í handbolta, var einn af stofnendum Golfklúbbsins Keilis og stundaði badminton með góðum árangri hjá TBR.

Eiginkona Finnbjörns var Theodóra Steffensen, f. 17.9. 1928, d. 27.12. 2018. Þau eignuðust sjö börn.

Finnbjörn lést 9. júlí 2018.

DEILA