Vissa útgerð ehf á Hólmavík fær 500 tonna sértækan byggðakvóta

Fjórar umsóknir bárust um 500 tonna sértækan byggðakvóta á Hólmavík sem Byggðastofnun auglýsti. Stofnunin lagði til að Vissa útgerð ehf á Hólmavík og samstarfsaðilar þess fengju kvótann. Sveitarstjórn Strandabyggðar veitti umsögn um tillöguna á fundi fyrir páska og bókað er að hún leggist ekki gegn „niðurstöðu aflamarksnefndar og starfsmanna Byggðastofnunar að veita Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum þennan kvóta.“ Segist sveitarstjórnin horfa „jákvæðum augum til þeirrar uppbyggingar í veiðum og vinnslu sem Vissa útgerð ehf og samstarfsaðilar skuldbinda sig til að standa að og raungera í Strandabyggð.“

Vissa útgerð ehf á bátinn Hlökk ST 66 sem er gerður út á grásleppu og hefur 177 tonna þorskkvóta og 156 tonna kvóta af ýsu.

Strandabandalagið, sem hefur meirihluta í sveitarstjórninni, lagði fram eigin bókun þar lýst er vonbrigðum yfir því að ekki hafi tekist samkomulag milli heimamanna og Stakkavíkur frá Grindavík, „sem frá upphafi þessa ferlis hefur lýst yfir skýrum áhuga á að flyja sína fiskvinnslu til Hólmavíkur, vegna aðstæðna í Grindavík sem þjóðin þekkir vel. Að auki lá fyrir, að Stakkavík myndi leggja til viðbótarframlag með eigin kvóta og stuðla þannig að enn öflugri fiskvinnslu hér á Hólmavík, sem gæti skapað tugi starfa á sjó og í landi. Þarna var að okkar mati mikið og sjaldséð tækifæri til að efla atvinnulífi í Strandabyggð og koma á öflugri fiskvinnslu á Hólmavík, með hagsmuni allra íbúa Strandabyggðar í huga.“ Þá segir ennfremur í bókun Strandabandalagsins að það séu „vonbrigði að áhugi Stakkavíkur hafi ekki ratað inn á borð Byggðastofnunar sem skýrari valkostur og það eru líka vonbrigði að allir hlutaðeigandi hafi ekki kannað þennan kost til hlýtar.“

Strandabandalagið hvetur alla hlutaðeigandi til að hugleiða samstarf sem gæti leitt af sér sameiginlega umsókn um sértækan byggðakvóta til lengri tíma, þegar það ferli fer í gang af hálfu Byggðastofnunar á næstu vikum.

Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar segir í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta að Stakkavík hafi ekki sótt um aflamark Byggðastofnunar á Hólmavík en hafi verið nefnt sem hugsanlegur samstarfsaðili í einni þeirra umsókna sem bárust. „Stakkavík dró sig þó út úr því samstarfi í umsóknarferlinu auk þess sem sá umsækjandi fór fram á 5 ára úthlutun, en fyrir lá að umrædd úthlutun var einungis fyrir núverandi fiskveiðiár.“

DEILA