Vesturbyggð: ekki fundir ef ekki eru mál á dagskrá

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að aðeins séu haldnir fundir þegar mál eru á dagskrá sem þarf að funda um, enda sé hver fundur dýr.

Hún segir að allar nefndir fundi að jafnaði einu sinni í mánuði, en fundir falli niður ef ekki eru mál á dagskrá sem nauðsynlegt er að afgreiða. Fundir nokkurra nefnda eru oft haldnir í tengslum við bæjarstjórnarfund, þannig að hægt sé að taka sem flest mál inn á dagskrá nefndarinnar sem má þá vísa til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi. Þórdís segir að hafnar- og atvinnumálaráð og skipulags- og umhverfisráð muni funda t.a.m. í þessari viku.

Bæjarráð fundar að jafnaði 2 sinnum í mánuði að sögn Þórdísar, en fundir falla niður ef ekki eru mál á dagskrá sem nauðsynlegt er að afgreiða. Hún segir að reyndar eigi eftir að birta fundargerð frá 26. mars sl., einnig var bæjarráðsfundur í dag.

Í gær voru svo birtar á vef sveitarfélagsins fundargerðir bæjarráðs frá 26. mars og 16. apríl svo og fundargerð undirbúningsnefndar um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps frá 8. apríl.

DEILA