ÚUA: hafnar stöðvunarkröfu á Arctic Fish

Kvíastæði Arctic Fish í Djúpinu.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafnaði í fyrradag kröfum um stöðvun framkvæmda við sjókvíaeldi Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi til bráðabirgða meðan nefndin fjallar um kröfu um ógildinu eldisleyfisins frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun.

Gunnar Hauksson, eigandi jarðarinnar Sandeyri og Hábrún ehf hafa kært eldisleyfið og vilja að það verði fellt úr gildi. Vildu kærendur jafnframt að allar framkvæmdir væru stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni þannig að Arctic Fish gæti ekki hafið eldið við Sandeyri eins að er stefnt í þessum mánuði.

Úrskurðarnefndin hefur afgreitt kröfuna um stöðvun framkvæmda og var henni hafnað í báðum tilvikum. Er því Arctic Fish ekkert að vanbúnaði að ganga frá eldiskvíum og setja út seiði á Sandeyri þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gefið út byggingarleyfi fyrir kvíarnar. Er stefnt að útsetningu eldisseiða fyrir mánaðamót.

Arctic Fish verður samkvæmt leyfunum með eldi á þremur stöðum í Ísafjarðardjúpi. Auk Sandeyrar verður eldi í kvíum við Arnarnes og Kirkjusund en samkvæmt rekstrar- og framleiðsluáætlunum leyfishafa verður engin starfsemi þar a.m.k. fram til aprílmánaðar árið 2025. Úrskurðar í máli þessu er að vænta fyrir þann tíma segir í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og því ekki ástæða til þess að stöðva framkvæmdir við þau eldissvæði. Varðandi Sandeyri segir að ljóst sé að „stefnt er að útsetningu seiða í kvíar á eldissvæði við Sandeyri á næstu dögum og er starfsemi þar því yfirvofandi. Þrátt fyrir það verður ekki álitið með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér fyrir leyfishafa, svo og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé óafturkræf, að knýjandi nauðsyn sé fyrir hendi til að beita undantekningarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva framkvæmdir á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis.“

DEILA