Suðurtangi: atvinnulóðum fjölgað

Lögð hefur verið fram tillaga og greinargerð vegna nýs deiliskipulags á hafnarsvæði og Suðurtanga á Ísafirði. Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur ákveðið að setja tillöguna í kynningu.

Markmið deiliskipulags breytinganna er að fjölga atvinnulóðum.

Deiliskipulagssvæðið er um 37,8 ha að stærð og fjöldi lóða er 42. Í núverandi deiliskipulagi eru aðeins 10 lóðir. Flatarmál lóðanna er tæplega 50 þúsund fermetrar en það stækkar í 185 þúsund fermetra með breytingunum sem lagðar eru til. Skipulagssvæðið stækkar frá fyrra deiliskipulagi með landfyllingu á syðsta hluta tangans í samræmi við breytingu á aðalskipulagi sem unnin er samhliða deiliskipulaginu. Á skipulagssvæðinu er fyrirhuguð iðnaðar- og athafnastarfsemi, auk safna- og miðbæjarstarfsemi og grænna svæða. Næst Sundabakka er gert ráð fyrir hafnsækinni starfsemi og neðst (syðst) á tanganum er gámasvæði. Við Sundabakka er gert ráð fyrir móttöku skemmtiferðaskipa og öruggum gönguleiðum gesta að safnasvæði og þjónustubátum. Hæð mannvirkja á öllu svæðinu takmarkast af hindranaflötum Ísafjarðarflugvallar. Landhæð og gólfhæð tekur mið af viðmiðum frá Vegagerðinni.

Haftasvæði

Á hafnarkantinum er afmarkað um 15 ha haftasvæði hafnarinnar. Haftasvæðið er vegna móttöku farþega skemmtiferðaskipa og um svæðið gilda reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO. Á haftasvæðinu er gert ráð fyrir móttökuhúsi fyrir farþega þeirra skemmtiferðaskipa sem leggjast að Sundabakka.

DEILA