Sjálfstæðisflokkurinn: stjórnvöld liðki fyrir orkuöflun í Norðvesturkjördæmi með lagasetningu

Laugar í Sælingsdal.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi hélt aðalfund sinn á Laugum í Sælingsdal laugardaginn 20. apríl. Í stjórnmálaályktun fundarins segir m.a. að mikilvægt sé að hið opinbera virði atvinnufrelsi og skapi atvinnugreinum, hinum nýju jafnt og þeim eldri og rótgrónari, umhverfi til að vaxa og dafna.

Til að tryggja verðmætasköpun þurfi innviðir að vera í lagi, hvort sem um er að ræða samgöngu-, orku- eða fjarskiptainnviði. Brýnt er að stjórnvöld liðki fyrir frekari orkuöflun í kjördæminu með lagasetningu. Þar megi sérstaklega nefna ákall Vestfirðinga um að verða sjálfum sér nægir í raforkumálum segir í ályktuninni.

Ályktunin í heild:

Atvinnufrelsi og eignarréttur eru órjúfanlegur hluti frjáls samfélags sem er forsenda þess að hægt sé að tryggja jöfn tækifæri, trausta grunnþjónustu og almenna velferð í samfélaginu. Öflugir innviðir og einfalt en skilvirkt regluverk eru forsenda kröftugs atvinnulífs. Hið opinbera á að halda sig til hlés en treysta á krafta einstaklingsins og einkaframtaksins til að skapa samfélag sem blómstrar.
Í Norðvesturkjördæmi er að finna fjölbreytt atvinnulíf. Afar mikilvægt er að hið opinbera virði atvinnufrelsi og skapi atvinnugreinum, hinum nýju jafnt og þeim eldri og rótgrónari, umhverfi til að vaxa og dafna með einföldu regluverki, fyrirsjáanleika, hóflegri gjaldtöku og skattheimtu og skilvirku eftirliti.
Til að tryggja verðmætasköpun þurfa innviðir að vera í lagi, hvort sem um er að ræða samgöngu-, orku- eða fjarskiptainnviði. Brýnt er að stjórnvöld liðki fyrir frekari orkuöflun í kjördæminu með lagasetningu. Þar má sérstaklega nefna ákall Vestfirðinga um að verða sjálfum sér nægir í raforkumálum, í samræmi við tillögur nefndar um orkumál í fjórðungnum sem skilaði af sér á síðasta ári og frekari uppbyggingu orkumannvirkja í Húnabyggð og Skagafirði. Tafarlaust þarf að endurskoða óskilvirkt og hægvirkt ferli sem
stjórnvöld hafa skapað og heldur aftur af grænni orkuöflun í landinu. Ekki síður er mikilvægt að halda áfram uppbyggingu flutningskerfa og afnema undanþágur arðbærra orkumannvirkja frá fasteignagjöldum.
Í mörgu hefur miðað í rétta átt í vegagerð í kjördæminu, en betur má ef duga skal enda eru margir vegir úr sér gengnir. Á það jafnt við um stofnvegakerfið og tengivegi. Ekki er nauðsynlegt að ríkið sjái um allar slíkar framkvæmdir og hafa Sjálfstæðismenn lagt fram frumvarp um Samfélagsvegi sem nauðsynlegt er að verði að lögum sem fyrst. Samþykkt frumvarpsins fæli í sér að íbúar fengju verkfæri til að hjálpa sér sjálfum og efla samkeppnishæfni og búsetuöryggi sinna byggða, með aðstoð einkaframtaksins þar sem
uppbygging vega er arðbær.
Kjördæmisráð fagnar áherslum ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins á að klára löggjöf í tengslum við hælisleitendur og löggæslu, ná tökum á útgjaldavexti og verðbólgu, auk áherslu á öryggis- og varnarmál. Í ljósi markmiða í ríkisfjármálum er uppstokkun ríkisstjórnarinnar þó dýru verði keypt og vonbrigði að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hverfi úr hlutverki fjármála- og efnahagsráðherra á mikilvægum tímapunkti á kjörtímabilinu. Það er von kjördæmisráðsins að ríkisstjórnin sýni það í verki að henni sé alvara með að styðja við helsta forgangsmál stjórnarinnar að ná niður verðbólgu og vaxtastigi.
Ríkisstjórnin þarf að vinna hörðum höndum að einföldun regluverks þvert á ráðuneyti. Mikilvægt er að frumvörp dómsmálaráðherra um útlendingamál og löggæslu verði að lögum á vorþingi og að téðir virkjunarkostir í Norðvesturkjördæmi og víðar verði samþykktir með lögum áður en árið er liðið. Í ríkisfjármálunum er mikilvægt að missa ekki dampinn og þau frumvörp og áhersluatriði sem fyrrum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði fram hljóti framgang.

Sjálfstæðisfólk í Norðvesturkjördæmi treystir því að ráðherrar beri virðingu fyrir atvinnufrelsi og eignarrétti óháð flokkum. Það er skýlaus krafa okkar að hvalveiðar verði heimilaðar þegar í stað. Jafnframt er
nauðsynlegt að frumvarp um kvótasetningu grásleppu verði lögfest, að endurskoðun fari fram á reglugerðardrögum um sjálfbæra landnýtingu og kröfum ríkisins til eyja og skerja umhverfis landið með heilbrigða skynsemi að leiðarljósi.
Ísland er land mikilla tækifæra. Okkur hefur borið gæfa til að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar af skynsemi og þannig stuðlað að lífskjörum sem jafnast á við það sem best þekkist í heiminum. Góð rekstrarskilyrði atvinnulífsins, efling skólastarfs á öllum skólastigum um land allt, stuðningur við nýsköpun og bráðnauðsynleg uppbygging innviða, leggur grunn að enn frekari lífskjarasókn og að áfram sé hægt að styrkja heilbrigðis- og velferðarkerfi okkar til lengri og skemmri tíma. Á síðari hluta kjörtímabilsins,
í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, ber því að leggja höfuðáherslu á áframhaldandi trausta efnahagsstjórn, sem styður við lífskjörin í landinu, stuðlar að heilbrigðu og öflugu atvinnulífi, örvar nýsköpun og tryggir að Ísland verði áfram í fremstu röð á sem flestum sviðum.

DEILA