Noregur: lítil merki um smit frá eldisfiski í villtan lax

Frá Harðangursfirði. Mynd: iLaks.no.

Hafrannsóknarstofnunin norska hefur birt niðurstöður rannsóknar sem gerð var í fyrra á mögulegum smiti frá eldisfiski í villtan lax. Veiddir voru laxar sem gengu um hafsvæði þar sem mikið er um sjókvíaeldi, svo sem Harðangursfjörð. Athugað var hvort finna mætti í villta laxinum einhverja af fjórum tegundum vírusa, PD, ILA, PRV-1 og PMCV. Alls voru 22 fiskar af 138 með einhvern vírusinn. Þrír fiskar voru með PD, þrír með ILA, sex með PRV-1 og 10 fiskar með þann síðastnefnda. Í skýrslunni segir að tilvikin séu fá og staðfesti fyrri rannsóknir á þessu sviði. Haft er eftir talsmanni rannsóknarinnar að niðurstaðan sé að tíðni smita frá eldislaxi í villtan lax og sjóbirting sé mjög lág og að ekki sé að sjá að eldið auki smittíðnina.

DEILA