Knattspyrna: Vestri hefur leik í bestu deildinni

Vestfirðingar á leiknum í gær. Hér má greina Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra Kerecis.

Í gær lék Vestri sinn fyrsta leik í Bestu deild karla í knattspyrnu. Eru liðin rúm 40 ár síðan ÍBÍ var í fyrstu deildinni so það voru sannarlega tímamót í knattspyrnusögu Vestfirðinga.

Leikið var í Úlfarsárdal gegn liði Fram, sem nýlega hefur komið sér fyrir þar eftir áratugi í Safamýrinni í Reykjavík.

Leikar fóru svo að Fram sigraði 2:0 með tveimur mörkum gerðum í fyrri hálfleik. Eins og oft áður undanfarin ár er Vestraliðið fyrri hluta keppnistímabilsins á eftir öðrum liðum og það leyndi sér ekki nú. Aðstaðan á Ísafirði er lakari en víðast hvar annars staðar og það hefur sitt að segja. Þjálfari Vestri Davíð Smári Lamunde sagði eftir leikinn í viðtali við fotbolti.net að liðið væri ekki með aðstöðu til að vera í efstu deild, og jafnvel í raun og veru ekki með aðstöðu til þess að vera í neinni deild á Íslandi en vildi samt ekki kenna því um. Það hefði verið vitað fyrir leikinn og liðið gæti bara kennt sjálfu sér um að hafa ekki leikið betur, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Vestfirðingar hins vegar gleðjast yfir því að eiga lið í efstu deildinni og eru minnugir þess að liðið byrjaði í fyrra rólega og steig svo hægt og rólega upp töfluna eftir því sem leið á sumarið og endaði á því að vinna sig upp um deild. Svo það getur orðið gott fótboltasumar.

Frá leiknum í gær. Vestri lék í hvítum búningum. Myndir:aðsendar.

DEILA