Ísafjörður: bæjarráð vill ekki setja meira fé í hitalagnir

Gervigrasvöllurinn á Torfnesi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í gær erindi frá Vestra um viðbótarstuðning vegna hitalagna í gervigrasvöll. Félaginu vantar enn 8,2 m.kr. til þess að klára fjármögnun á lögnum og öðrum búnaði. Bæjarráðið ítrekaði fyrra boð sitt um 4.8 m.kr. styrk til að kaupa hitalagnir og tengdan búnað undir völlinn. Ef fjármögnun verks að öðru leyti hefur ekki tekist bendir bæjarráð á þann möguleika að setja lagnir undir hluta vallarins.

Bæjarráðið bendir á að ekki er um snjóbræðslukerfi að ræða, heldur sé það til þess að halda gúmmípúða undir grasi frostfríum. Snjómokstur er mikilvægastur til að völlurinn sé æfingahæfur og til þess keypti Ísafjarðarbær sérstakt tæki sl. haust.

Bæjarráðið segir í bókun að það hafi áhyggjur af því að eftir að hitalagnir eru lagðar verði enn mikill stofnkostnaður sem ekki er gert ráð fyrir í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins og engin önnur fjármögnun fyrirliggjandi. Auk þess sé fyrirsjáanlegt að rekstrarkostnaður verði afar hár. Þar að auki muni þessar framkvæmdir seinka framkvæmdum enn frekar inn í tímabil sem þegar er hafið í knattspyrnunni.

Kostnaðaráætlun Verkís ehf., fyrir verkið er 28,5 m.kr.- með tengikistum, frostlegi og þrýstiprófun. Í yfirliti sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs kemur fram að með aðkomu áhugamanna og annarra verði heildarkostnaður, 16 m.kr. sem eru aðallega innkaup á búnaði. Þar af hefur Ísafjarðarbær samþykkt 4,8 m.kr. vegna lagna og OV leggur til 3 m.kr.- til annarra efniskaupa. Það liggur fyrir fjármögnun uppá 7,8 m.kr. Þá á enn eftir að fjármagna 8,2 m.kr. og var lagt fyrir bæjarráðið að taka afstöðu til þess sem upp á vantar.

DEILA