Dagverðardalur: Skipulagsstofnun samþykkir auglýsingu að teknu tilliti til athugasemda

Breyting á deiliskipulagi á Dagverðardal í Skutulsfirði fyrir orlofshúsabyggð var samþykkt í bæjarstjórn 7. mars sl. Skipulagsstofnun hefur nú skilað umsögn sinni og segist ekki gera athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst þegar brugðist hefur verið við nokkrum athugasemdum sem stofnunin gerir. Einkum vill Skipulagsstofnun að nánar verði tilgreint í skipulagsákvæðum aðalskipulags hvernig fyrirkomulag frístundabyggðar er hugsað og yfirbragð svæðis kemur til með að verða útfært þar sem um talsverðan fjölda nýrra frístundahúsa sé að ræða.

Breytingin nær yfir íbúðarsvæðið Í9 í Dagverðardal í Skutulsfirði og teygir sig aðeins inn á opið svæði norðan svæðisins. Lagt er til að svæði Í9 og smá partur af opnu svæði verði frístundarbyggð og fái einnig landnotkunarflokkinn verslun og þjónusta.

Meginmarkmið breytingarinnar er að breyta íbúðarsvæði í frístundabyggð og að koma til móts við eftirspurn ferðamanna á gistimöguleikum segir í greinargerð um tillöguna.

Upphaf málsins er að í lok árs 2021 óskaði fyrirtækið Fjallaból ehf eftir samkomulagi við
Ísafjarðarbæ um afnotarétt á svæði til frístundahúsabyggðar í Skutulsfirði. Það var svo undirritað 30.8. 2022 og var um lóðaúthlutun í Dagverðardal í Skutulsfirði á reit sem kallast Í9 í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og er reitnum úthlutað í einu lagi. Í samkomulaginu er kveðið á um að allt að 45 frístundahús verði byggð á reitnum og eru þau bæði hugsuð til sölu og útleigu til ferðamanna.

DEILA