Ísafjarðardjúp: breyting á leyfi Háafells kærð

Vinnubáturinn Korfri á siglingu í Djúpinu. Mynd: Háafell.

Náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi hafa kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki þurfti að framkvæma sérstakt umhverfismat fyrir tímabundna breytingu á kvíaeldi fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi. Ætlunin er að hafa tvo árganga eldislax á sama kvíaeldissvæði á  svæði utan Álftafjarðar og Seyðisfjarðar. Háafell hyggst að setja út í Seyðisfirði í vor seiði en fyrir er í Kofradýpi kvíastæði með seiðum sem sett voru út í fyrra. Ástæðan er að ekki er útlit fyrir að minnsti fiskurinn í Skötufirði verði tilbúinn til slátrunar fyrr en í ágúst og síðan þarf að gera ráð fyrir að hvíla svæðið áður en næstu seiði fara í kvíarnar. Frávik frá matsskýrslu vegna eldis á árgangi 2024 í Seyðisfirði myndi vara frá vori 2024 til vorsins 2026.

Skipulagsstofnun féllst á erindið 22. febrúar 2024.

Kærandinn vill að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og lagt fyrir Skipulagsstofnun að afla frekari upplýsinga um ástand hlutaðeigandi strandsjávarhlots áður en stofnunin tekur afstöðu til þess hvort fyrirhuguð framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Segir kærandi að engar upplýsingar liggi fyrir í málinu um hvort núverandi ástand vatnshlotsins sé í samræmi við umhverfismarkmið þess.

Þá segir í kærunni að ekki hafi verið gert straumlíkan fyrir Ísafjarðardjúp til að áætla rek á laxalúsalirfum milli eldissvæða og því hugsanlegt að rek laxalúsalirfa aukist milli eldissvæða við breytinguna.
Vísað er í umsögn Fiskistofu sem segir að nokkur áhætta kunni að vera á því vegna minni fjarlægðar
milli eldissvæða að laxalús geti magnast upp og að til álita geti komið að fara fram á umhverfismat vegna þessarar auknu áhættu.

Er það sjónarmið kæranda að Skipulagsstofnun hafi ekki haft upplýsingar sem nægi til að slá því föstu að ólíklegt væri að hin tilkynnta breyting hefði umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Úrskurðarnefndin hefur kæruna til meðferðar en ekki liggur fyrir úrskurður verður kveðinn upp.

DEILA