Ísafjarðarbær styrkir tungumálanámskeið

Frá námskeiðinu Tungmálatöfrar í fyrra.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að styrkja Tungumálatöfra að fjárhæð kr. 288.960, vegna leigu á Félagsheimilinu á Flateyri og Grunnskólanum á Flateyri í sumar.

Óskað var eftir afnotum af félagsheimilinu á Flateyri og Grunnskólanum í Önundarfirði. Tungumálatöfrar þurfa aðgang að 3 kennslustofum, eldhúsi og salernum auk félagsheimilisins. Samkvæmt gjaldskrá Ísafjarðarbæjar er leigan 288.960 kr.

Í erindinu segir að Tungumálatöfrar er námskeið þar sem börn með annað móðurmál en íslensku hafa tækifæri til að efla íslensku kunnáttu sína í gegnum útiveru og listsköpun. Á námskeiðinu fá börnin að
tengjast hvort öðru í öruggu umhverfi sem hvetur þau til að tala íslensku með sínum einstaka hætti. Börn með íslensku að móðurmáli hafa einnig sótt námskeiðið og verið ómissandi leiðbeinendur þeirra sem þurfa aðstoð við íslenskuna. Þá hafa myndast dýrmæt vinatengsl í gegnum árin sem hafa blómstrað.

Námskeiðið hefur undanfarin ár verið haldið á Ísafirði en nú er vilji fyrir því að færa námskeiðið yfir til Flateyrar í ár, þar sem það hentar betur að hafa námskeiðin tvö, Töfraútivist (12-14 ára) og Tungumálatöfra (6-11 ára) á sama stað.

DEILA