Gallup: afhroð hjá stjórnarflokkunum í Norðvesturkjördæmi

Bergþór Ólason, alþm. Miðflokksins tekur stökk upp á við í skoðanakönnun Gallup.

Miklar breytingar myndu verða í Norðvesturkjördæmi í næstu alþingiskosningum yrðu úrslit í samræmi við nýjustu könnun Gallup sem unnin var í mars.

Á landsvísu er Samfylkingin með langmest fylgi 30,9%. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 18,2%. Miðflokkurinn er með þriðja mesta fylgið 12,9%. Aðrir flokkar næðu ekki 10%. Píratar, Viðreisn og Framsóknarflokkurinn eru á bilinu 7-8%, flokkur fólksins rúmlega 6%, Vinstri grænir tæplega 6% og Sósíalistaflokkurinn rétt undir 4%.

Í Norðvesturkjördæmi er Samfylkingin með 22,1% fylgi og þrefaldar fylgi sitt frá síðustu alþingiskosningum. Miðflokkurinn bætir einnig verulega við sig og mælist með 18,1% fylgi og yrði næststærsti flokkurinn í kjördæminu. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 7,4% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fellur í þriðja sæti í kjördæminu og fengi 16,3% fylgi en hafði 22,6% í kosningunum 2021. Næst kæmi Framsóknarflokkurinn með 12,8%, en var stærsti flokkurinn síðast með 25,8%.

Önnur framboð fengju innan við 8% fylgi hvert, Flokkur fólksins 7,9%, Píratar 7,6%, Vinstri grænir 7,1%, Viðreisn 4,9% og Sósíalistaflokkurinn 3,2%. Fylgi Vinstri grænna minnkar verulega en það var 11,5% í kosningunum 2021.

Þingsætum í Norðvesturkjördæmi fækkar um eitt í næstu kosningum og verða sex kjördæmisþingsæti og eitt jöfnunarsæti.

Ef þetta yrðu úrslit kosninganna myndu kjördæmisþingsætin skiptast þannig að Samfylkingin fengu tvö þingsæti og sömuleiðis Miðflokkurinn. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fengju eitt þingsæti hvor flokkur. Aðrir flokkar fengju ekki kjördæmakjörinn þingmann.

Stjórnarflokkarnir þrír sem hafa sex kjördæmaþingmenn í dag fengju aðeins tvo. Framsóknarflokkurinn myndi missa tvö þingsæti, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir missa eitt þingsæti hvor flokkur. Hins vegar myndi Samfylkingin vinna tvö þingsæti, en hefur ekkert nú og Miðflokkurinn ynni tvö kjördæmaþingsæti, en hann hefur nú jöfnunarþingsætið. Flokkur fólksins missir kjördæmisþingsæti sitt.

Ekki er lagt mat á það hvaða flokkur myndi hreppa jöfnunarsætið samkvæmt þessari könnun.

DEILA