Fjármálaáætlun: 25% hækkun launa á þremur árum

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.

Fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029 að laun á hverja vinnustund hafi hækkað um fjórðung á síðustu þremur árum. Það er mun meiri vöxtur en í nágrannaríkjum. Þá hafi kaupmáttur launa á vinnustund frá 2013 hækkað um helming samkvæmt gögnum Eurostat.

Þenslan í þjóðarbúinu hafi ekki síst komið fram á vinnumarkaði og eftirspurn eftir vinnuafli er enn nokkru meiri en í venjulegu árferði þótt hún nálgist jafnvægi segir í áætluninni.

Þá birtist aukin efnahagsleg velsæld víðar en í vexti kaupmáttar. Þannig hafa skuldir heimilanna sjaldan á undanförnum áratugum verið lægri í hlutfalli við hvort heldur ráðstöfunartekjur þeirra eða eignir og eru á þessa mælikvarða hóflegar í samanburði við helstu nágrannalönd.
Eigið fé heimilanna hefur jafnframt aukist mjög á undanförnum árum – nánar tiltekið um 2.000 milljarða kr. milli áranna 2020 og 2022.

DEILA