Alþingi: vill banna sjókvíaeldi

Gísli Rafn Ólafsson (P). alþm í suðvesturkjördæmi.

Gísli Rafn Ólafsson, alþm fyrir Pírata hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarp matvælaráðherra um lagareldi sem kveður á um að eldi laxfiska í sjókvíum verði óheimilt við strendur landsins með þeim rökstuðningi að það sé til verndar villtum laxi.

Til vara leggur Gísli til að eldi laxfiska í opnum sjókvíum verði óheimilt við strendur landsins.

Í fyrstu grein frumvarps ráðherrans segir að markmið laga þessara sé að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna.

Í annarri grein frumvarpsins segir að lög þessi gildi um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Breytingartillagan snýr hins vegar einungis að 7. grein frumvarpsins sem kveður á um það hvar óheimilt er að ala eldislax í sjókvíum við strendur landsins og eru tilgreind viðeigandi hafsvæði. Leggur flutningsmaður breytingartillögurnnar til að eldið verði óheimilt við strendur landsins.

Fyrir Alþingi liggur óafgreidd þingsalyktunartillaga, lögð fram í október 2023, sjö þingmanna, þar á meðal Gísla Rafns Ólafssonar um bann við við fiskeldi í opnum sjókvíum. Þar er lagt til að  Alþingi álykti að fela matvælaráðherra að leggja til bann við fiskeldi í opnum sjókvíum við yfirstandandi endurskoðun laga um fiskeldi. Flutningsmennirnir sjö eru sex frá þingflokki pírata og einn frá Viðreisn.

DEILA