Alþingi: ekki stendur til að banna loðdýrarækt

Loðdýr í búri. Mynd: visir.is

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra segir í svari við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur, varaþingmanni að á landinu séu sex loðdýrabú með um það bil 7.600 dýrum í lok síðasta árs.

Spurt var hvort ráðherra muni „beita sér fyrir því að banna loðdýrarækt á Íslandi vegna dýravelferðarsjónarmiða og í ljósi þess að 25 ríki í Evrópu hafa bannað loðdýrarækt af þeim sökum og sífellt fleiri bætast við.“

Því svarar ráðherrann þannig að samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar sé öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. „Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Því er ljóst að ef banna skal ákveðna tegund búfjárhalds þarf Alþingi að setja lög þess efnis. Ekki stendur til að svo stöddu að leggja fram frumvarp á Alþingi um bann við loðdýrarækt. „

Ennfremur segir í svarinu að mikilvægt sé að gæta að velferð dýra í hvívetna, þar á meðal loðdýra. „Markmið laga um velferð dýra er að stuðla að því að dýr séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“

DEILA