Vesturbyggð: lækka gjaldskrár

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir ánægju sinni með sérstakri bókun að kjarasamningar hafi náðst til lengri tíma, með það að markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu og skapa þar með skilyrði fyrri stöðuleika og aukinn fyrirsjáanlega. Bæjarráð samþykkti að leggja sitt af mörkum til að auka sátt á vinnumarkaði, m.a. með endurskoðun gjaldskráa ársins 2024 og að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlun fyrir 2024 hækkaði bæjarstjórn Vesturbyggðar gjaldskrár um 7,5% frá gjaldskrám sem giltu fyrir 2023. Í forsendum kjarasamninganna er miðað við að hækkun á gjaldskrám sveitarfélaga verði ekki umfram 3,5%. Bæjarstjóra var falið að koma með tillögur að gjaldskrárbreytingum, en ljóst er að lækka verður nýsamþykktar gjaldskrár um 4% til þess að falla að forsendum kjarasamninganna. Vegna sameiningar Vesturbyggðar við Tálknafjarðarhrepp sem tekur gildi í vor verður haft samráð við sveitarstjóra Tálknafjarðar.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og samtaka sveitarfélaga segir að áætluð bein kostnaðarþátttaka forráðamanna vegna skólamáltíða grunnskólabarna nemi um fimm milljörðum króna á ári og muni ríkið greiða 75% þess kostnaðar eða allt að 4 milljarða króna.

Ríki og sveitarfélög munu útfæra þetta í sameiningu fyrir lok maí 2024. Til að meta árangur tilraunaverkefnisins verður óháðum aðila falið að leggja mat á framgang þess vorið 2026.

DEILA