Umferðin.is hlaut 1. verðlaun

Umferðin.is sem er upplýsingavefur Vegagerðarinnar, hlaut 1. verðlaun sem samfélagsvefur ársins 2023 þegar Íslensku vefverðlaunin 2024 voru veitt á dögunum. 

Hönnunarstofan Kolofon og Greipur Gíslason unnu að vefnum nánu samstarfi við Vegagerðina. 

Samtök vefiðnaðarins  standa að Íslensku vefverðlaununum.  Þetta er í annað sinn sem umferðin.is hlýtur þessi verðlaun.  

 Í umsögn dómnefndar um umferðin.is segir: „Vefurinn sinnir gríðarlega mikilvægu samfélagslegu hlutverki og gerir það sérlega vel. Hann er í stöðugri þróun og eru flóknar upplýsingar settar fram á skýran og kjarngóðan hátt. Það skín í gegn að hér hefur verið vandað til verks.“ 

Upplýsingavefurinn umferðin.is var settur í loftið í október 2022 og hefur verið í stöðugri þróun síðan þá. Markmiðið er að auðvelda vegfarendum að finna upplýsingar um ástand og færð á vegum og helstu upplýsingum um umferð.

Á umferðin.is eru upplýsingar um færð, veður, vetrarþjónustu, vegaframkvæmdir, umferðartölur, þungatakmarkanir og fleira gagnlegt. Vefurinn er sérstaklega hugsaður fyrir snjalltæki og er mjög þægilegur í notkun.

DEILA