Strandabyggð styður samgöngusáttmála Vestfjarða

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í vikunni ályktun til stuðnings hugmyndum Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, forstjóra Kerecis um samgöngusáttmála Vestfjarða sem hann setti fram á síðasta fjórðungsþingi sem haldið var í Bolungavík. Lagði Guðmundur áherslu á að jafna leikinn og koma samgöngumálum á Vestfjörðum á þann stað að jafnaðist á vi aðstæður annars staðar á landinu. Í því skyni yrðu framkvæmdir , bæði vegagerð og jarðgangagerð unnin á næstu árum, fjármögnuð með lántökum og endurgreidd með veggjöldum og tekjum af aukinni verðmætasköpun í fjórðungnum sem yrðu mögleg vegna framkvæmdanna.

„Sveitarstjórn Strandabyggðar fagnar þeim hugmyndum sem settar eru fram í samgöngusáttmálanum og tekur undir með Guðmundi Fertam Sigurjónssyni að samgöngumál á Vestfjörðum séu komin í öngstræti. Nægir þar að nefna langa sögu umræðu um Álftafjarðargöng, lagfæringu á Innstrandarvegi, vegasamgöngur í Árneshreppi og umræðu um Suðurfjarðagöng um Mikladal og Hálfdán, svo nokkur brýn verkefni séu tilgreind. Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir sig reiðubúna til samstarfs og mun tilnefna fulltrúa sinn í þessa vinnu, þegar þess verður óskað. Þakkar sveitarstjórn Guðmundi fyrir að vekja máls á þessari stöðu en ekki síður fyrir að benda á nýjar leiðir til fjármögnunar þessara framkvæmda“.

Bæjarstjórn Bolungavíkur samþykkti í síðasta mánuði sambærilega stuðningsyfirlýsingu.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson í viðtali á Ísafirði.

DEILA