Skíðavikan og Sögufélag Ísfirðinga

Það verður mikið um að vera á Ísafirði í dag. Á skíðavikunni eru einir 14 viðburðir á skrá. Skíðasvæðið í Tungudal opnaði kl 10 og verður opið til kl 21 í kvöld. Þar verður m.a. boðið upp á skíðaskotfimi frá kl 12 til kl 14 og fjallaskíðaferð í Botnsdal. Síðdegis verður Kómedíuleikhúsið í Haukadal Dýrafirði með sýninguna lífið er lotterí sem er söngdagskrá tileinkuð textasmiðnum og leikskáldinu Jónasi Árnasyni.

Þá verður Myndlistarsýning leikskólabarna í gluggum verslana í miðbænum. Sýningin opnar á skírdag, 28. mars, kl. 16:30. Boðið verður upp á útikakó á Silfurtorgi.

Í kvöld verða GDRN & Magnús Jóhann í Ísafjarðarkirkju og Jónfrí í Dokkunni svo fátt eitt sé nefnt.

Loks má minna á aðalfund Sögufélags Ísfirðinga í Safnahúsinu Ísafirði og hefst fundurinn kl 17. Þar mun forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson flytja erindi sem nefnist Vestfirðingar og útfærsla fiskveiðilögsögunnar á síðustu öld.

DEILA