Nemendur Háskólaseturs Vestfjarða heimsóttu Bolungarvík

Nemendur Háskólaseturs Vestfjarða heimsóttu nýlega Jón Pál bæjarstjóra í Bolungarvík og var sú heimsókn hluti af námskeiðinu “Búferlaflutningar og íbúaþróun”.

Nemendurnir fengu að skoða sig um á bæjarskrifstofunni og kíktu yfir á Náttúrustofu Vestfjarða, Bláma og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í sömu byggingu.

Jón Páll kynnti átak sem kallast “Bolungarvík 1000+” sem snýr að því að fjölga íbúum Bolungarvíkur úr 950 í 1000. Átakið varð til vegna áforma um að sameina bæjarfélög sem væru með færri íbúa en 1000.

Fyrsti liðurinn í átakinu var að auka framboð á húsnæði. Það var gert með því að gera ráð fyrir nýjum byggingarreitum í aðalskipulagi. “Það er ekki hægt að auka íbúafjölda nema fjölga húsnæði, þó það hafi verið viss áhætta á sínum tíma þar sem það voru beinlínis ekki margir að óska eftir nýjum byggingalóðum” – segir Jón Páll.

Önnur megin stoð er að fjárfesta í innviðum og tók Jón dæmi um viðbyggingu við leikskóla og stækkun á vatnsbóli. Hann talaði einnig um stuðning við nýsköpun og stofnun nýrra fyrirtækja.

Þriðja stoðin er hins vegar einkageirinn. Efnahagur Bolungarvíkur byggðist upp á nálægðinni við fiskimiðin. Bærinn hefur reitt sig á útgerð og fiskvinnslu og fjárfestingar og skipulag bæjarins taka mið af því.

Jón fjallar um það hvernig íbúafjöldi bæjarins hafi farið lækkandi í mörg ár, en fyrir um 10 árum hafi eitthvað breyst og hann fór að hækka. Hann telur það vera vegna laxeldis, mjólkurframleiðslu og ferðaþjónustu. Hann telur þó laxeldið vera stærstu breytuna og segir að þessi geiri skapi um 30-35 störf.

DEILA