Jónfrí: plata og tónleikar á skírdag

Tónlistarmaðurinn Jón Frímannsson kemur vestur um páskana með sveit sína og verður með tónleika á skírdag á Dokkunni og mun spila þar meðal annars lög af nýrri plötu, Draumur um Bronco, sem kemur út í næstu viku, þann 14. mars. Hljómsveitin kallar sig Jónfrí. Jón á ættir sínar að rekja vestur á Ísafjörð. Móðir hans, Lára Kristín Guðmundsdóttir var Ísfirðingur og Jón eyddi sumarfríum æsku sinnar á Fjarðastræti 6, hjá ömmu sinni og afa Láru Veturliðadóttur og Guðmundi M. Ólafssyni, kokki á Fagranesinu. Móðurbróðir Jóns, Ólafur Guðmundsson var gítarleikari og söngvari í vestfirsku sveitinni B.G. og Ingibjörg.

Tónleikarnir á Dokkunni verða útgáfutónleikar fyrir plötuna þar sem hann kemur fram ásamt vestfirsku söngvaskáldunum Gosa og Kela. Sveitin spilar kærulausa tónlist um hversdagsleg málefni og hina eilífu leit að réttu stemmningunni. Aðrir í hljómsveitinni, auk Jóns eru Birgir Hansen, Sölvi Steinn Jónsson og Sveinbjörn Hafsteinsson.

Lagið Andalúsía, fyrsta smáskífan af plötunni, sat í tvær vikur á toppi vinsældalista Rásar 2 og var eitt mest spilaða lag ársins. Sveitin er tilnefnd til tveggja verðlauna á Íslensku hlustendaverðlaununum; nýliði ársins og tónlistarmyndband ársins.

DEILA