Jón Páll Halldórsson kjörinn heiðursborgari í Ísafjarðarbæ

Heiðursborgarinn Jón Páll Halldórsson og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri. Mynd: Pálmi Kr. Jónsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti einróma á fundi sínum 21. mars síðastliðinn að útnefna Jón Pál Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Norðurtangans heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Var honum haldið hóf í Turnhúsinu á Ísafirði í dag og fékk þar afhent skjal því til staðfestingar. Jón Páll er þriðji einstaklingurinn sem hlýtur þessa nafnbót síðan Ísafjarðarbæ varð til 1996 og sá sjötti þegar Ísafjarðarkaupstaður er talinn með.

Í ávarpi Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra koma fram að auk starfa að atvinnumálum hafi hann komið að málefnum skátahreyfingarinnar og að menningar- og menntamálum á Ísafirði. Hann sat í nefnd sem undirbjó stofnun Menntaskólans á Ísafirði og síðan í bygginganefnd skólans. Þá átti hann lengi sæti í húsafriðunarnefnd Ísafjarðar og  var formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarða frá 1968 til 1996. Á þeim vettvangi barðist hann ötullega fyrir friðun gömlu húsanna í Neðstakaupstað og að þar yrði aðsetur Byggðasafnsins til framtíðar.

Ávarp bæjarstjóra:

Jón Páll Halldórsson á að baki langan og farsælan starfsferil, lengstum sem framkvæmdastjóri í útgerð og fiskvinnslu á Ísafirði. Fyrir flesta hefði slíkt ábyrgðarstarf verið nægt viðfangsefni en það eru þó störf Jóns Páls í hjáverkum sem ber hæst þegar upp er staðið.

„Jón Páll Halldórsson fæddist á Ísafirði 2. október 1929, elstur fimm systkina. Foreldrar hans voru Kristín Svanhildur Guðfinnsdóttir, húsmóðir, og Halldór Jónsson, sjómaður og verkamaður á Ísafirði. Voru þau bæði af bændafólki komin, móðir hans frá Litlabæ í Skötufirði og faðir hans frá Fossum í Skutulsfirði. Jón Páll fæddist í lítilli kjallaraíbúð í Tangagötu 10 en barnsskónum sleit hann hins vegar í Hrannargötu þar sem foreldar hans keyptu íbúð árið 1934. Varð sú gata og fjörukamburinn fyrir neðan Fjarðarstrætið helsta leiksvæði Jóns Páls og systkina hans. Fyrir tilstuðlan Halldórs Sigurgeirssonar, nágranna þeirra í Sólgötu 7, gengu öll systkinin í Knattspyrnufélagið Hörð þar sem Halldór var þjálfari um árabil. Í ársbyrjun 1942 gekk Jón Páll til liðs við skátana en tvö skátafélög störfuðu þá á Ísafirði, Einherjar og Valkyrjan. Varð það upphaf ævilangs skátastarfs þar sem Jón Páll gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. félagsforingi Einherja í 18 ár eða frá 1959 til 1976.

Að lokinni skólagöngu á Ísafirði fór Jón Páll í Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi vorið 1948. Sneri hann þá heim aftur og gerðist skrifstofustjóri hjá Togarafélaginu Ísfirðingi. Starfaði hann þar til ársins 1961 og stýrði síðan ýmsum fyrirtækjum á Ísafirði uns hann var ráðinn framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Norðurtanga hf. árið 1969. Gegndi hann því starfi til ársins 1996 eða í rúman aldarfjórðung. Mikil uppbygging var í atvinnulífinu á Ísafirði á þessum tíma og Hraðfrystihúsið Norðurtangi eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki landsins.

Á sumardaginn fyrsta, 23. apríl 1953, gekk Jón Páll að eiga Huldu Pálmadóttur. Foreldrar hennar voru Pálmi Gunnar Gíslason, útvegsbóndi í Ögurnesi og síðar verkamaður á Ísafirði, og kona hans Guðfinna Andrésdóttir, húsmóðir. Voru þau búsett í Ögurnesi við Ísafjarðardjúp til ársins 1945 þegar þau fluttu til Ísafjarðar. Jón Páll og Hulda hófu búskap í Grundargötu 6 þar sem þau leigðu litla íbúð í tæp sex ár. Þar fæddust tvö elstu börnin þeirra, Halldór og Guðfinna. Yngsta barnið, Pálmi Kristinn, fæddist á Engjavegi 14. Höfðu Jón Páll og Hulda fengið þar lóð til húsbyggingar og hafið framkvæmdir vorið 1956. Haustið 1958 fluttu þau í hluta nýbyggingarinnar sem var ekki tilbúin að fullu fyrr en tólf árum eftir að framkvæmdir hófust.

Jón Páll sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir samtök og fyrirtæki sjávarútvegsmanna og hraðfrystihúsaiðnaðarins. Átti hann m.a. sæti í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, var stjórnarformaður Icelandic Freezing Plants Ltd. í Grimsby, varafiskimálastjóri, í stjórn Sambands almennra lífeyrissjóða, formaður Verslunarmannafélags Ísafjarðar og formaður Vinnuveitendafélags Vestfjarða. Jón Páll var vararæðismaður Svíþjóðar á Ísafirði og hlaut á sínum tíma riddarakross sænsku Norðurstjörnunnar. Hann hefur verið sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu og heiðursmerkjum skátahreyfingarinnar.

Jón Páll tók þátt í bæjarmálum á Ísafirði og sinnti þar öðru fremur menningar- og menntamálum. Hann sat í nefnd sem undirbjó stofnun Menntaskólans á Ísafirði og síðan í bygginganefnd skólans. Þá átti hann lengi sæti í húsafriðunarnefnd Ísafjarðar og  var formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarða frá 1968 til 1996. Á þeim vettvangi barðist hann ötullega fyrir friðun gömlu húsanna í Neðstakaupstað og að þar yrði aðsetur Byggðasafnsins til framtíðar. Jón Páll er heiðursfélagi Sögufélags Ísfirðinga þar sem hann hefur verið félagsmaður frá því að félagið var stofnað árið 1953. Hann var kosinn í stjórn árið 1960 og sat sem formaður frá 1979 til 2006 þegar hann ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Jón Páll hefur alla tíð borið hag Sögufélagsins fyrir brjósti og starfsemi þess verið honum hugleikin, ekki síst útgáfa ársritsins sem hefur komið út reglulega frá árinu 1956. Jón Páll átti sæti í Hrafnseyrarnefnd í rúman aldafjórðung.

Eftir að Jón Páll lét af starfi framkvæmdastjóra Norðurtangans hf. árið 1996 settist hann að fræðagrúski og ritstörfum sem hann stundaði af miklu kappi og hafði fyrr en varði skilað af sér fimm bókum sem Sögufélag Ísfirðinga gaf út. Fjalla þær mest um ísfirska atvinnusögu og leynist engum yfirgripsmikil þekking höfundar á viðfangsefninu. Vart þarf að geta þess að fjöldinn allur af greinum og ritgerðum liggur eftir Jón Pál um ýmis mál, allt eftir því hvað verið var að fást við hverju sinni.

Það er með virðingu og þakklæti sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar útnefnir Jón Pál Halldórsson heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Mikið og óeigingjarnt starf Jóns Páls í þágu menningarmála, ekki síst framlag hans til varðveislu héraðssögu og menningarsögulegra verðmæta, er ómetanlegt. Jón Páll er einnig verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem vann hörðum höndum að uppbyggingu bæjarfélagsins á 20. öld og mótaði það samfélag sem við byggjum í dag.“

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri ávarpar heiðursborgarann Jón Pál Halldórsson.

Bæjarfulltrúarnir Kristján þ. Kristjánsson og Nanný Arna Guðmundsdóttir og Magni Guðmundsson.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA