Landsbjörg: húfa ný fjáröflun

Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu og 66 gráðum norður segir að í nærri heila öld hafi 66°Norður og Slysavarnarfélagið Landsbjörg lifað með þjóðinni og átt í mjög farsælu samstarfi stóran hluta þess tíma. Samstarf þessara aðila megi rekja allt til ársins 1928, en 66°Norður hóf að framleiða hlífðarfatnað fyrir íslenska sjómenn árið 1926 sem björgunarsveitir tóku fljótt ástfóstri við. Þá þróaði 66°Norður um árabil fatnað fyrir björgunarsveitir landsins sem skýldi björgunarsveitarfólki fyrir óblíðri veðráttu landsins. 

66°Norður og Slysavarnafélagið Landsbjörg kynna nú til sögunnar Landsbjargarhúfuna, hannaða af 66°Norður í samstarfi við Landsbjörg. „Markmiðið var að hanna sterka, hlýja og endingargóða húfu með þarfir björgunarsveitarfólks í huga. Húfan er ekki síður hugsuð fyrir almenning til að nota allan ársins hring í útivist. Húfan er úr merino ullarblöndu og því sérstaklega hlý og mjúk.“

Innblástur fyrir mynstur Landsbjargarhúfunnar er hálendi Íslands og fjallagarðar landsins. Mynstrið er unnið út frá loftmynd af fjallaskaga á norðanverðu Íslandi. Loftmyndin var tekin árið 1999, sama ár og Slysavarnarfélag Íslands og Landsbjörg sameinuðust og til varð Slysavarnarfélagið Landsbjörg. 

Húfan fer í sölu í verslunum 66°Norður og vefverslun Landsbjargar og 66°Norður þann 20 febrúar nk og kemur í takmörkuðu upplagi. Verðið á húfunni er 7.900 kr. og rennur ágóðinn  af sölu húfunnar til styrktar Landsbjörg. 

Þá segir í tilkynningunni: „Íslendingar skilja vel mikilvægi öflugra björgunarsveita og standa við bakið á þeim sem klettur. Í þeim náttúruhamförum sem riðið hafa yfir þjóðina undanfarin ár hefur mikilvægi Slysavarnafélagsins Landsbjargar aldrei verið mikilvægara. Mikið hefur mætt á björgunarsveitum síðustu ár og því aldrei verið brýnna en nú að landsmenn taki höndum saman og styðji þetta mikilvæga starf.“

 

  

DEILA