HG kaupir nýjan Júlíus Geirmundsson ÍS

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf hefur undirritað samning um smíði á nýju frystiskipi við skipasmíðastöðina Astilleros Ria del Vigo í Vigo á Spáni. Skipið kemur í stað Júiusar Geirmundssonar ÍS 270 sem verður 35 ára á þessu ári.

Skipið er hannað af verkfræðistofunni Skipasýn ehf í samvinnu við útgerðina og verður 67,1 metri að lengd og 16 metra breitt með 3600 kW Man aðalvél. Áætlaður afhendingartími skipsins er síðari hluta árs 2026.

Nýja skipið verður hagkvæmt í rekstri og búið öllum nýjasta tækjabúnaði sem völ er á. Orkunýtni verður mjög góð og byggir á stórri hæggengri skrúfu svipað og er á öðrum togara fyrirtækisins Páli Pálssyni ÍS 102 og reynst hefur afar vel undanfarin sex ár.

Við hönnun skipsins hefur verið lögð áhersla á góðan aðbúnað og vinnuaðstöðu áhafnar skipsins. Þannig verða öll svefnrými skipverja fyrir einn mann með tilheyrandi aðstöðu.  Til að létta störf áhafnarinnar og auka afköst byggir vinnslukerfi skipsins að miklu leyti á sjálfvirkni og verður það m.a. búið flokkurum, sjálfvirkum frystum, afurðahóteli sem flokkar afurðir eftir tegundum  og stærðum og búnaði sem pakkar afurðum á bretti og flytur niður í lestar.  Einnig verður búnaður til að vinna lýsi úr aukaafurðum um borð í skipinu.

Hraðfrystihúsið–Gunnvör hf. gerir út 2 togara, er með fiskvinnslu í Hnífsdal og niðursuðuverksmiðju í Súðavík.  Auk þess stundar dótturfyrirtæki félagsins, Háafell ehf. laxeldi í Ísafjarðardjúpi og vinnur núna að stækkun seiðaeldisstöðvar sinnar á Nauteyri við Ísafjarðardjúp.

DEILA