Gefum íslensku séns á sunnanverðum Vestfjörðum á helginni

Vert er að benda á að Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag verður með þrjár kynningar á helginni á sunnanverðum Vestfjörðum. Til stendur að kynna átakið almennt og fyrir hvað það stendur. En augnamiðið er jafnframt að það megi skjóta þar rótum þannig að standa megi að viðburðum með það að leiðarljósi að auka tækifæri fólks til að æfa íslensku, að stuðla að íslenskuvænu samfélagi.

Áhugasamir geta kynnt sér málið á FB-síðu átaksins.

Við ætlum s.s. að koma við á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði á morgun, laugardag.

Klukkan 12:00 verðum við í Muggsstofu á Bíldudal
Klukkan 14:00 verðum við í Tálknafjarðarskóla á Tálknafirði
Klukkan 16:00 verðum við í Patreksskóla á Patreksfirði

Auk þess stendur til að vinna hugmyndavinnu enda eru allar hugmyndir vel þegnar, allar hugmyndir sem hafa það að augnamiði að auka veg íslenskunar og auka tækifæri fólks til að æfa sig í notkun málsins þar sem móðurmálshafar, hugsanlegir almannakennarar, gegna lykilhlutverki.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða, sem er einn af stofnaðilum átaksins og virkur þátttakandi, verður með í för og mun einnig kynna starfsemi sína.

Þess fyrir utan er ýmislegt í farvatninu. T.d. hraðíslenska á Kaffi Galdri á Hólmavík 1. mars, í Blábankanum á Þingeyri 12. mars svo og á Bryggjukaffi á Flateyri 13. mars. Svo er auðvitað Þriðja rýmið á sínum stað í Bókasafninu á Ísafirði 11. mars.

Látum okkur endilega málið varða, þetta er mál okkar allra.

Íslenskunámskeið / Icelandic Courses

Háskólasetur Vestfjarða / University Centre of the Westfjords

DEILA