Vestri: Vestfirðingarnir snúa heim

Knattspyrnudeild Vestra býr sig af kappi undir komandi tímabil í Bestu deildinni. Í gær var tilkynnt um að samningar hefðu náðst við Fylki í Reykjavík um Bolvíkinginn Pétur Bjarnason. Pétur er sóknarmaður og spilaði á síðasta ári með Fylki í efstu deildinni, en hafði áður leikið í mörg ár hér fyrir vestan og á að baki 211 leiki og 76 mörk fyrir Vestra og fyrirrennara þess BÍ/Bolungarvík. Mun Pétur Bjarnason leika með Vestra.

Fyrir áramótin var sóknarmaðurinn Andri Rúna Bjarnason kynntur sem leikmaður Vestra, en hann er sem kunnugt er einnig Bolvíkingur og lék um árabil með BÍ/Bolungavík áður en hann flutti sig í efstu deildina og lék þar um árabil og fór svo út í atvinnumennsku. Síðasta leiktímabil lék hann með Val í Reykjavík.

Þriðji heimamaðurinn er varnarmaðurinn Friðrik Þórir Hjaltason. Hann er snúinn heim og hefur skrifað undir samning við félagið út árið 2025 eftir árs dvöl í Reykjavík. Friðrik er fæddur 1998, er uppalinn hjá félaginu og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2014. Friðrik á að baki 125 leiki fyrir Vestra og fyrirrennara þess BÍ/Bolungarvík í öllum keppnum.

DEILA