Súðavíkursnjóflóðin: samstaða á Alþingi um skipun rannsóknarnefndar

Súðavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson..

Samstaða er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um að leggja til að skipuð verði rannsóknarnefnd um snjóflóðin í Súðavík í janúar 1995. Ágúst Bjarni Garðarsson alþm og nefndarmaður staðfesti það við Bæjarins besta. Til rannsóknar verða viðbrögð stjórnvalda fyrir og eftir slysin.

Forsætisráðherra sendi nefndinni bréf 6. júní 2023 í kjölfar þess að hópur aðstandenda þeirra sem fórust höfðu óskað eftir opinberri rannsókn. Málið hefur síðan verið tekið fyrir í nefndinni á einum 12 fundum og lauk nefndin umfjöllun sinni í gær.

Í bréfinu segir forsætisráðherra að í erindi aðstandendanna komi fram alvarlegar athugasemdir við tilhögun skipulagsmála sveitarfélagsins og atburðarrásina í aðdraganda snjóflóðanna auk verklags almannavarna. Þar er fullyrt að alvarlegir annmarkar hafi verið á snjóflóðahættumati og hvernig staðið var að rýmingu húseigna.

Þingnefndin sendir niðurstöðu sína til forseta Alþingis sem leggur það svo fyrir Alþingi. Samþykki Alþingi ályktun um að skipuð verði rannsóknarnefnd til þess að rannsaka málsatvik skipar forseti Alþingis nefndina. Meginhlutverk rannsóknarnefndar er að afla upplýsinga og gera grein fyrir málsatvikum. Rannsóknarnefnd er í störfum sínum óháð fyrirmælum frá öðrum, þar með talið Alþingi. Skulu nefndarmenn jafnframt vera óhlutdrægir og óvilhallir gagnvart þeim stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og öðrum sem nefndin hefur til athugunar. Sama á við um starfsmenn og aðstoðarmenn rannsóknarnefndarinnar að öðru leyti.

Tillaga stjórnskipuar- og eftirlitsnefndar að ályktunartexta hefur ekki verið birtur og mun vera unnið að lokafrágangi.

DEILA