Súðavík: sterkur fjárhagur, framkvæmdir og stöðug íbúabyggð

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir í áramótakveðju á vef sveitarfélagsins að ýmislegt sé á góðum vegi í sveitarfélaginu. „Hér eru framkvæmdir og nokkuð stöðug íbúabyggð, fjárhagur sveitarfélagsins sterkur í samanburði á landsvísu. Framkvæmdum við Langeyri miðar vel og verður næsta ár komandi nokkur vendipunktur varðandi útlit og ásýnd. Upphafið að nýjum hafnarframkvæmdum sem gefa góða möguleika á atvinnusköpun okkur öllum til heilla. Flest hefur fallið með okkur þó auðvitað megi alltaf gera betur og gera meiri kröfur til okkar sjálfra. Og það er fæst vegna utanaðkomandi aðstoðar.“

Þá sé langt komið með að tengja allt í ljósleiðara í sveitarfélaginu og fyrstu áföngum að ljúka með tengingu þrífasa rafmagns.  

Þá víkur Bragi að samgöngumálum og segir að Súðavíkurhlíðin hafi minnt á sig og „gerði jólahald hér með öðru sniði rétt um aðfangadag og jóladag. En á sama tíma er verið að vinna verðmætt efni úr hlíðinni til uppbyggingar á athafnasvæði við Langeyri. Vonandi verður það táknrænt varðandi þennan veg. Súðavíkurhöfn hefur gengið í gegnum nokkra endurnýjun með bættri aðstöðu og nokkuð tíð umferð hefur verið stærri skipa þar um með uppskipun á laxafóðri og búnaði til fiskeldis. En vonandi berum við gæfu til þess að landa þar um fiski til frambúðar.“

Helst séu  blikur og kólguský á lofti „sem verða ekki síst til á Alþingi í garð sveitarfélags af þeirri stærðargráðu sem við byggjum“ segir sveitarstjórinn og á þar við þá miklu áherslu sem stjórnvöld leggja á að sveitarfélög með færri íbúa en 1.000 sameinist öðrum og sendir þeim þessa pillu:

„Og á sama tíma er verið að endurskipa innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem við ásamt nokkrum öðrum teljumst hafa notið ofjöfnunar framlaga úr sjóðnum. Þetta er kaldhæðnislegt meðan á sama tíma er verið að loka síðustu opinberu stofnunum sem hér hafa verið s.s. póstþjónustu. Er það sveitarstjóra umhugsunarefni til hvers Jöfnunarsjóður er í raun ef ekki til þess að mæta slíku. Hér er ekki kvóti í neinu formi sem varðar sjávarútveg og trauðla hefur gengið að nýta þann byggðakvóta sem Súðavík er markaður.“

  

DEILA