Súðavík: samningar um stálþil í burðarliðnum

Væntanlegt stæði kalkþörungaverksmiðjunnar í Súðavík. Unnið er að landfyllingu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lægstbjóðandi í stálþil við Langeyri hefur verið metinn og ljóst að hægt er að ganga til samninga við hann en það er ekki búið að skrifa undir. Það verður væntanlega  gert í þessari viku eða næstu. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

Um er að ræða hafnargerð vegna byggingar kalkþörungaverksmiðju á Langeyri í Álftafirði. Vegagerðin opnaði tilboð í stálþilið í desember sl. og bárust þrjú tilboð.

Kranar ehf., Egilsstöðum var lægstbjóðandi. Tilboð þess var 157.776.666 kr. sem er 3,9% undir áætluðum verktakakostnaði 164,1 m.kr.

Aðrir bjóðendur voru HAGTAK HF., Hafnarfirði sem bauð 213,2 m.kr. og Borgarverk ehf., Borgarnesi, en tilboð þess var 238,8 m.kr.

Verkinu skal lokið eigi síðan en 1. nóvember 2024.

Steypa á 23 akkerissteina. Reka niður 85 tvöfaldar stálþilsplötur og steypa um 119 m langan kantbita með pollum, kanttré, stigum og þybbum.

DEILA