SFS: ásetningur Matvælaráðherra að virða skyldur og réttindi að vettugi

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja í tilkynningu um úrskurð umboðsmanns Alþingis um stöðvun hvalveiða í sumar að ekki  verði annað ráðið en að ásetningur ráðherra hafi staðið til þess að virða að vettugi mikilsverð réttindi Hvals hf og skyldur ráðherra sem framkvæmdavaldshafa. Samtökin segja það til mikillar umhugsunar þegar ráðherra gengur svo um grundvallarréttindi fólks og fyrirtækja.  

Niðurstaða umboðsmanns var að mati SFS að ákvörðun matvælaráðherra að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum við Ísland 20. júní sl. hafi farið í bága við lög og matvælaráðherra hafi ekki gætt að meðalhófi við ákvörðun sína, sem honum beri að gera samkvæmt skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Niðurstaðan sé í fullu samræmi við málflutning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og lögfræðilegt álit lögmannsstofunnar LEX sem SFS aflaði í kjölfar ákvörðunar ráðherra og birti hinn 27. júní sl. 

Ráðherra hunsaði ráðleggingar eigin sérfræðinga

Þá hafi ráðherra virt „að vettugi ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytis síns sem töldu m.a. nauðsynlegt að (i) rannsaka með sjálfstæðum hætti allar mögulegar tillögur til breytinga á reglugerð og áhrif þeirra, (ii) huga að meðalhófi og (iii) gæta að andmælarétti Hvals hf. Þegar hin ólögmæta ákvörðun ráðherra lá fyrir töldu sérfræðingar ráðuneytisins einnig rétt að vekja máls á mögulegri skaðabótaábyrgð sem af ákvörðun þessari gæti kviknað.“

Vitnað er til minnisblaðs frá skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu til ráðherra, dags. 12. júní, þar sem reifaðar voru ýmsar hugmyndir að mögulegum breytingum á reglugerð. Hvergi var þar að finna umfjöllun um bann við veiðum þetta sumarið. Þar sagði hins vegar orðrétt: Öll reglusetning á grundvelli þeirra heimilda ráðherra sem að framan eru rakin þarf, auk lagaáskilnaðarreglna, að uppfylla kröfur um réttmæti og meðalhóf og rannsóknarskyldu ráðuneytisins. Í því felst að allar ákvarðanir þurfa að vera hófstilltar og byggjast á málefnalegum sjónarmiðum auk þess að vera reistar á viðeigandi og fullnægjandi upplýsingum.“

Vitnað er frekar í minnisblaðið, en bannið var sett á daginn áður en veiðarnar áttu að hefjast og þar segir: Hinn skammi frestur og þeir fjárhagslegu hagsmuna [sic] leyfishafa af því að geta skipulagt starfsemi sína í samræmi við gildandi lög og reglur setja því nokkrar skorður við hversu langt er hægt að ganga vegna núverandi vertíðar“.

Loks segir í minnisblaði skrifstofunnar: „Ákveði ráðherra að nýta þær reglugerðarheimildir sem tilgreindar eru að framan er lagt til að undirstofnunum ráðuneytisins verði umsvifalaust falið að afla nauðsynlegra sérfræðilegra upplýsinga um þau atriði sem til greina kemur að kveða á um í reglugerð. Þá er æskilegt að gefa leyfishafa kost á að tjá sig um fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar og lýsa afstöðu sinni til þeirra, þar á meðal að upplýsa hvort og þá hvaða tjóni félagið telji sig verða fyrir ef af reglugerðarbreytingum verði.“

Í öðru minnisblaði sömu skrifstofu frá 20. júní er varað við því að viðbúið sé að látið verði reyna á lögmæti stöðvunarinnar fyrir dómstólum eða umboðsmanni alþingis og segir að ekki sé unnt að segja fyrir um niðurstöðu þess og um bótaábyrgð ríkisins gæti verið að ræða. Er mælt með því að aflað verði utanaðkomandi lögfrfæðiálits um það.

DEILA