Ofanflóðavarnir fyrir atvinnuhúsnæði

Mynd úr skýrslu Veðurstofunnar.

Í dag rennur út í samráðsgátt stjórnvalda umsagnarfrestur um áform til að útvíkka löggjöf um ofanflóðavarnir til atvinnuhúsnæðis. Verða þá reist varnarmannvirki eða farið í uppkaup. Einnig tiltekið að
eftirlit með hættu á ofanflóðum á skipulögðum skíðasvæðum sé á ábyrgð rekstraraðila þeirra.

Fyrir liggur skýrsla Veðurstofu Íslands frá síðasta ári þar sem skoðuð voru atvinnusvæði á tíu þéttbýlisstöðum á landinu, þar af voru sex á Vestfjörðum. Brunabótamat atvinnuhúsnæðisins á þeim stöðum er um 10 milljarðar króna, þar af mest á Seyðisfirði 4,5 miljarðar króna.

Lagðar eru til varnir þar sem þær eru mögulegar og kostnaðarmat er minna eða á pari við brunabótamat þess sem er varið. Miðað er við að varnir fyrir atvinnusvæði færi þau af hættusvæðum C og a.m.k. á hættusvæði B. Lagðar eru til varnir fyrir eignir á C-svæðum með brunabótamat samtals 4,5 milljarða með þeim vörnum yrðu einnig varðar eignir á B-svæðum með brunabótamat upp á 1,2 milljarða. Kostnaðarmat við þessar varnir er rúmir 4 milljarðar.
Brunabótamat eigna sem ekki er mögulegt að verja er hinsvegar rúmir 5,5 milljarðar. Stærstur hluti verðmæti eigna sem ekki er hægt að verja er á Seyðisfirði.

Verja húsnæði að verðmæti 3,6 milljarðar króna – kostnaður 1,3 milljarðar kr.

Á Vestfjörðum er brunabótamat atvinnuhúsnæðis sem þarf að huga að um 3,6 milljarðar króna á fimm þéttbýlisstöðum. Kostnaður við varnir er 1,3 milljarðar króna.

Hæsta fjárhæðin er í Súðavík en þar er brunabótamatið 1,4 milljarðar króna. Kostnaður við varnir er 260 m.kr. Einkum er það frystihúsið sem þarf að verja. Lagt er til að það verði varið með þvergarði ofan við allt húsið.

Hæsti kostnaður við varnir er hins vegar í Hnífsdal 430 m.kr. Brunabótamat atvinnuhúsnæðis á B og C svæði er 630 m.kr.

Á Ísafirði eru mannvirki fyrir 790 m.kr. á C svæði og kostnaður við varnir er 280 m.kr. Á Patreksfirði eru á hafnarsvæðinu mannvirki að brunabótamati 760 m.kr. á hættusvæði og varnir eru metnar á 300 m.kr.

Áformin um lagasetninguna voru kynnt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar í gær en ekkert bókað um afstöðu nefndarinnar.

DEILA