Mast kærði ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum til ríkissaksóknara

Helgi Jensson er lögreglustjóri á Vestfjörðum.

Matvælastofnun hefur kært til ríkissaksóknara ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að hætta rannsókn á slysasleppingu úr kví Arctic Fish í Patreksfirði á síðasta ári.

Matvælastofnun kærði sleppinguna til lögreglustjórans á Vestfjörðum, sem rannsakaði málið, og tilkynnti í síðasta mánuði að hann hefði hætt rannsókn málsins og fellt það niður. Stofnunin hefur nú skotið málinu til ríkissaksóknara sem fer yfir ákvörðun lögreglustjórans. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála ber ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kæru á ákvörðunum lögreglustjóra innan þriggja mánaða frá móttöku hennar. Getur hann staðfest ákvörðun lögreglustjóra eða fellt hana úr gildi.

27 kærur

Alls bárust 27 kærur til ríkissaksóknara að meðtalinni kæru Matvælastofnunar. Embætti ríkissaksóknara vildi ekki upplýsa um hverjir það eru, en bæði landssamband veiðifélaga og íslenski náttúruverndarsjóðurinn, icelandic wildlife fund höfðu tilkynnt að þau myndu leggja fram kæru.

Aðeins málsaðilar geta kært og sagði Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar á Bæjarins besta fyrr í janúar að hún liti ekki á landssamband veiðifélaga sem málsaðila. Frá embætti ríkissaksóknara fengust þau svör í gær að það yrði skoðað hverjir teljist málsaðilar og hafi kærurétt.

DEILA