Ísafjarðarbær: fagnar frv. um lagareldi

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir í umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarp til laga um lagareldi, sem hefur verið í kynningu á samráðsgátt stjórnvalda, að sveitarfélagið fagni frumvarpinu og þakki fyrir samráð við undirbúning þess. Mikilvægt sé að frumvarpið verði sem fyrst að lögum en það byggi undir sterkari stoðir fyrir fiskeldið og skýrari ramma utan um lagareldið.

Vel hafi verið staðið að vinnu við frumvarpið og er vísað til skýrslna frá Ríkisendurskoðun og Boston Consulting Group.

Lögð er áhersla á að störf tengd rannsóknum, eftirliti og menntun verði í nærumhverfi greinarinnar. Nýjum samfélagssjóði fiskeldis er fagnað en hann hefur það hlutverk að styrkja sjókvíaeldisbyggðir en minnt á sjónarmið sveitarfélaga um að úthlutað verði beint til sveitarfélaga og segir í umsögninni að komið sé til móts við það sjónarmið í frumvarpinu. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafi hins vegar farið fram á að allt að 80% af fiskeldsgjaldi renni beint til sjókvíaeldissveitarfélaga í stað 30%.

Þá segir að skoða þurfi betur reglugerðarákvæði frumvarpsdraganna sem séu fjölmörg og óljós.

DEILA