Fiskeldisgjaldið hækkar um 106%

Háafell er eina fyrirtækið sem fengið hefur leyfi til eldis á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Eldiskvíar Háafells utan Skötufjarðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fiskistofa hefur birt auglýsingu um endurreiknaða fjárhæð fiskeldisgjalds fyrir 2024. Alþingi ákvað fyrir jól að hækka gjaldið úr 3,5% í 4,3% af viðmiðunarverði á alþjóðlegum mörkuðum. Er það hækkun um 23% eins greint var frá á Bæjarins besta í fyrradag.

Fiskeldisgjaldið á þessu ári verður 37,80 kr/kg af slægðum eldislaxi og helmingur þess fyrir regnbogasilung. Gjaldið var í fyrra 18,33 kr/kg og er hækkunin hvorki meira né minna en 106%.

þetta er nærri fimm sinnum meiri hækkun en nemur breytingunni á álagningarprósentunni úr 3,5% í 4,3%.

Skýringa á þessu er einkum að finna í tveimur atriðum. Annars vegar er fiskeldisgjaldið innleitt á 7 árum og hækkar á hverju ári um 1/7 frá 2020 til 2026 þar til fullu gjaldi er náð. Hækkunin vegna þessa leiðir sjálfkrafa til 25% hærra gjalds í ár en í fyrra. Hins vegar þá var breytt viðmiðunarverðinu sem gjaldið leggst á. Áður var miðað við meðaltalsmarkaðsverð á eldislaxi mánaðanna ágúst – október en nú er miðað við ársmeðaltalið. Verðið var lægst á haustin svo ársmeðaltalið verður hærra og Arctic Fish áætlar að þessi breyting hafi hækkað fiskeldisgjaldið um 26%.

Þá hefur verð á eldislaxi heldur hækkað á erlendum mörkuðum mælt í evrum, sem hækkar fiskeldisgjaldið. Breytingar á gengi evru og ísl krónunnar hafa áhrif en þau eru lítil að þessu sinni.

700 m.kr. út af svæðinu

Vestfirsku laxeldisfyrirtækin munu greiða liðlega 1 milljarð króna í fiskeldisgjald á árinu miðað við framleiðsluáætlanir þeirra. Af þeirri fjárhæð fer þriðjungur í Fiskeldissjóð sem úthlutar til sveitarfélaga þar sem fiskeldið er stundað til ýmissa verkefna. Sveitarfélögin á Vestfjörðum geta vænst þess að fá um 300 m.kr. út sjóðnum. Niðurstaðan verður því að 700 milljónir króna renna í ríkissjóð frá fiskeldi á Vestfjörðum.

DEILA