Fiskeldisgjaldið hækkar um 23%

Eldiskvíar.

Alþingi afgreiddi lagabreytingu fyrir jólin um fiskeldisgjald og hækkaði það úr 3,5% í 4,3% af verði eldislax á alþjóðlegum markaði. Hækkunin nemur 23%. Tekjur ríkissjóðs af gjaldinu eru áætlaðar verða 2,1 milljarður króna á þessu ári og hækkar þær um 630 m.kr. vegna hækkunarinnar.

Upphaflega lagði fjármálaráðherra til að gjaldið yrði 5% en meirihluti fjárlaganefndar Alþingis dró úr hækkuninni og lagði til að það yrði 4,3%, sem var svo samþykkt.

Þrátt fyrir það voru tekjur ríkissjóðs af gjaldinu ekki lækkaðar frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Segir í áliti meirihluta fjárlaganefndar að það sé vegna þess að talsverður munur sé á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta gerði Mast ráð fyrir að framleiðsla ársins yrði 40.000 tonn af eldislaxi en fiskeldisfyrirtækin áætla að framleiðslan verði 49.000 tonn.

Með hækkun gjaldsins í 4,3% og framleiðslumagn 49.000 tonn er gert ráð fyrir þeim tekjum af fiskeldisgjaldinu sem upphaflega tillagan um 5% átti að skila í ríkissjóð.

DEILA