Af hverju orkuskipti? – Loftslags- og orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga

Hjörleifur Finnsson

Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga síðastliðið haust var ákveðið að sveitarfélögin á Vestfjörðum myndu sameiginlega hefja vinnu við að setja sér loftslagsstefnu og var Vestfjarðastofu falið að leiða þá vinnu.

Skömmu fyrr hafði Vestfjarðastofa heppilega hlotið styrk, ásamt samstarfsaðilum, til að auka þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum og þróa orkuskiptaáætlanir hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum. Verkefnið ber heitið RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) og er styrkt af LIFE áætlun Evrópusambandsins. Það má þó segja að engin loftslagsstefna sé ljóseindar virði ef hluti af henni er ekki áætlun um orkuskipti. Loftlagsstefna og aðgerðaáætlun henni tengd felur í sér áætlun um orkuskipti og verða því verkefnin tvö að miklu leyti rekin sem ein heild loftslags- og orkuskiptaáætlana.

En hvers vegna þurfum við loftslags- og orkuskiptaáætlanir?

Augljósa ástæðan eru loftslagsbreytingar með öllum sínum margháttuðu áhrifum og afleiðingum, sem að mestu leynast í óræðri framtíð. Þess vegna hættir okkur til að gleyma þeim. Þau geta hins vegar birst okkur hér sem fleiri stormar, færri fiskar, minni snjór en fleiri snjóflóð, nýjar tegundir en fábreyttari lífheimur, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru bara nokkrar ástæður þess hvers vegna það er skynsamlegt að gera svona áætlanir og fara eftir þeim – en þær eru fleiri:

  • Í fyrsta lagi því það getur sparað pening
  • Í öðru lagi af því að það getur minnkað sóun og sparað pening
  • Í þriðja lagi af því að það getur eflt og betrumbætt gæðastjórnun sveitarfélaganna og sparað pening
  • Í fjórða lagi af því að stjórnvöld krefjast þess og eru með suð og kvabb ef það er ekki gert
  • Í fimmta lagi því þá er hægt að sækja um styrki sem gera kröfu um svona áætlanir (og fá pening)
  • Í sjötta lagi af því að einhverjum tilfellum fást hagstæðari lánakjör vegna þessa, sem sparar pening
  • Í sjöunda og síðasta lagi vegna þess að það er rétt. Það er einfaldlega rétt að búa komandi kynslóðum upp á lífvænlegan heim, svo allt okkar tal um sjálfbærni verði ekki einungis orðin tóm

Nú er þessi vegferð við gerð loftslagsáætlana og orkuskipta að hefjast á Vestfjörðum og þann 8. febrúar n.k. blásum við til fundar þar sem farið verður betur í saumana á því. Sérfræðingur að sunnan mætir. Sérfræðingur norðan úr Bolungarvík mætir. Sérfræðingur að vestan mætir. Sérhæfður rithöfundur frá Ísafirði mætir. Síðast en ekki síst mætir mjög sérhæfður smiður frá Danmörku, og jafnvel þú!

Dagskráin verður betur auglýst síðar, t.d. á heimasíðu Vestfjarðastofu, þar sem líka má finna upplýsingar um RECET verkefnið Recet | Vestfjarðastofa (vestfirdir.is) eða RECET (recetproject.eu).

Hjörleifur Finnsson,

Verkefnastjóri umhverfis og loftslagsmála

Vestfjarðastofu

DEILA