Vísindaportið: Anna Lind Ragnarsdóttir – barátta við krabbamein

Í Vísindaporti á morgun 1. desember kl. 12:10 mun Anna Lind Ragnarsdóttir Skólastjóri Grunnskólans í Súðavík halda erindi í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða um hvernig hún tókst á við illkynja krabbamein og hóf að ganga á fjöll.

Anna Lind Ragnarsdóttir er 59 ára Skólastjóri Grunnskólans í Súðavík, fædd og alin upp í Súðavík. Æskan hennar var yndisleg, mikið frelsi til þess að nota ímyndunaraflið til leiks og skemmtunar.

Eftir grunnskóla og eitt ár í framhaldsskóla, hætti hún námi og fór að vinna. Ferðaðist um heiminn og ákvað að koma heim og settist að í Súðavík.

Fór að kenna 1990 og tók við skólastjórastöðu grunnskólans 1998. Súðavíkurskóli var sameinaður í einn skóla með leik- , grunn- og tónlistarskóla með einum stjórnanda 2009 og tók hún við þeirri stöðu og er enn að.

Það er oftar en ekki að maður horfir yfir líf sitt þegar eitthvað bjátar á hjá manni. Anna Lind man eftir þegar snjóflóðið í Súðavík féll 16. janúar 1995 þá var hún þrítug og varð 31 árs tveimur dögum síðar eða 18.janúar það kvöld fór þá einmitt aðeins yfir líf sitt.

Árið 2009 fer hún aftur yfir stöðuna þar sem hún greinist með illkynja krabbamein í brjósti.

Anna Lind var ótrúlega heppin því allt gekk upp hjá henni, en að sama skapi verður maður viðkvæmur og meyr því hún hefur horft á eftir svo mörgum sem töpuðu sinni baráttu við krabbamein.

Þetta var vakning hvað varðar lífið. Hún ákvað að hún skyldi reyna að gera allt sem í hennar valdi stæði til að verða betri manneskja, ekki bara fyrir sig og sín heldur líka fyrir samfélagið og aðra.

.

Anna Lind las mikið um sjúkdóminn og hvað væri ráðlegt að gera í framhaldinu og eitt af því var hreyfing.

Hún tók þetta allt inn og byrjaði að fara í fjallgöngur og það hefur að hennar mati breytt öllu hennar lífi til batnaðar.

Hlekkur á erindið:

https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

DEILA