Átta nýjar starfsstöðvar til eflingar íþróttastarfs

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ við undirritun samnings

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ undirrituðu í dag samning um átta nýjar starfsstöðvar til eflingar íþróttastarfs á landsvísu.

Samningurinn markar tímamót fyrir íþróttir á Íslandi en á grundvelli hans mun íþróttahreyfingin koma á fót átta svæðisskrifstofum með stuðningi stjórnvalda. Svæðisskrifstofurnar munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins og ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.

Tillögur um stofnun starfsstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ í vor og á þingi UMFÍ í haust. Auk þess að setja á laggirnar átta svæðisskrifstofur munu ÍSÍ og UMFÍ samkvæmt samningnum koma á Hvatasjóði, þar sem íþróttahéruð/félög/deildir geta sótt um stuðning við verkefni er miða t.d. að útbreiðslu íþrótta og aukinni þátttöku barna.

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun veita 400 m.kr. til verkefnisins á næstu tveimur árum. Þar af setja ÍSÍ og UMFÍ 130 m.kr. af árlegu framlagi ráðuneytisins til svæðisskrifstofa og 70 m.kr. til Hvatasjóðs. Á hverri svæðisskrifstofu verða tvö stöðugildi, annað fjármagnað af ráðuneytinu og hitt af íþróttahreyfingunni.

DEILA