Afturelding og Reykhólahreppur gera samstarfs- og styrktarsamning

Við undirritun samningsins, Sandra Rún Björnsdóttir UMFA, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri og Styrmir Sæmundsson formaður UMFA

Þann 19. desember skrifuðu fulltrúar Ungmennafélagsins Aftureldingar á Reykhólum* og Reykhólahrepps undir styrktar- og samstarfssamning til þriggja ára.

Markmið samningsins er að skilgreina og efla tengsl og samskipti á milli sveitarfélagsins og Ungmennafélagsins Aftureldingar. Samningnum er ætlað að styðja við æskulýðs- og íþróttastarf sem fram fer á vegum Umf. Aftureldingar, íbúum sveitarfélagsins til heilla.

Með samningnum viðurkennir Reykhólahreppur hið mikilvæga hlutverk sem Umf. Afturelding gegnir gagnvart íbúum sveitarfélagsins.

Samkvæmt samningnum fær Umf. Afturelding afnot af íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins auk árlegs framlags að upphæð kr. 1 millj. Á móti skuldbindur Umf. Afturelding sig til ýmissa verkefna þ.m.t. að halda úti æfingum fyrir börn að 18 ára aldri, allt árið um kring og starfrækja líkamsræktarstöð.

*) Ungmennafélag með sama heiti er eins og flestir vita í Mosfellsbæ, það kemur upp ef Afturelding er „gúggluð“, en ef reykhólar eru látnir fylgja koma smá upplýsingar.

DEILA